Græn nýsköpun og hringrásarhugsun í sviðsljósinu í Hörpu

Margt var um manninn í Björtuloftum í Hörpu á miðvikudaginn þegar fjárfestar, frumkvöðlar og fólk úr viðskiptalífinu sótti lokadag viðskiptahraðalsins Hringiðu sem hefur staðið yfir undanfarnar vikur á vegum KLAK – Icelandic startups. Viðburðurinn var í beinu streymi á vefsíðu KLAK og er hann einskonar uppskeruhátíð þar sem nokkur framúrskarandi sprotafyrirtæki sem vinna að grænni nýsköpun kynna verkefni sín og afrakstur vinnu undanfarinna vikna.

Sævar Helgi Bragason, betur þekktur sem Stjörnu-Sævar, stýrði viðburðinum með glæsibrag og kynnti fyrsta til leiks Heiðu Björgu Hilmisdóttur, borgarstjóra, sem flutti opnunarávarp. Í ávarpinu fjallaði hún sérstaklega um mikilvægi þess að búa til umgjörð þar sem frumkvöðlar og fólk með frjóan huga komi saman, hugsi út fyrir boxið og búi til nýja hluti. Hringiða sé ekki einungis viðskiptahraðall heldur lifandi vistkerfi nýsköpunar þar sem hugmyndir fái að vaxa, speglast og þróast í lausnir sem nýtast samfélaginu. Hún lagði áherslu á að Reykjavíkurborg líti svo á að KLAK sé með borginni að byggja upp nýsköpunarinnviði sem skipti sköpum fyrir lífsgæði borgarbúa til framtíðar.

Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri KLAK hélt svo stutt erindi um græna nýsköpun og þá miklu velgengni sem Hringiðuteymi hafa átt að fagna hingað til áður en komið var að aðalatriðinu sem voru kynningar frá teymunum sem tóku þátt í Hringiðu þetta árið. Eitt af öðru stigu teymin á stokk og svöruðu svo spurningum frá panel sem var skipaður þeim Mörtu Hermannsdóttur, fjárfestingastjóra Eyrir Ventures og Kjartani Erni Ólafssyni, framkvæmdastjóra Transition Labs sem hvort um sig hefur einstaka innsýn inn í heim grænnar nýsköpunar og fjárfestinga í þessari senu.

Teymin Haf-Afl, HuddleHop, Loki Foods, Optitog, Svepparíkið, Timber Recycling og Þarahrat vinna að afar fjölbreyttum lausnum og eru viðfangsefni þeirra allt frá plöntumiðuðu heilsufæði yfir í orkuöflun, nýsköpun í veiðarfærum og umhverfisvæna ferðamáta.

Hlutverk Hringiðu+ er að stuðla að því að á Íslandi dafni öflug sprotafyrirtæki sem byggja á hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins, skapi verðmæt og áhugaverð störf og skili árangri í umhverfis- og loftslagsmálum á Íslandi. Í ár voru sjö teymi valin til þátttöku í Hringiðu og hafa þau undanfarnar vikur tekið þátt í dagskrá sem felur m.a. í sér, fyrirlestra og hraðstefnumót með fjárfestum og sérfræðingum úr atvinnulífinu, vinnustofur um fjölbreytt málefni á borð við markaðssetningu, aðgerðaráætlanir, hugverkaréttindi og fjölbreyttar fjármögnunarleiðir. Þau hafa svo einnig fundað með sérvöldum hópi KLAK VMS mentora með það að markmiði að betrumbæta sprotafyrirtækin sín.

Bakhjarlar Hringiðu+ eru Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Orkuveitan, Reykjavíkurborg, Faxaflóahafnir, Terra, og Samtök iðnaðarins.

en_GBEnglish (UK)