
KLAK – Icelandic Startups og Landsbankinn hafa endurnýjað samstarf sitt um frumkvöðlakeppnina Gulleggið með undirritun nýs þriggja ára samnings. Með samningnum staðfestir Landsbankinn áframhaldandi hlutverk sitt sem aðalbakhjarl keppninnar og undirstrikar þar með langvarandi stuðning bankans við íslenskt nýsköpunarumhverfi.
Landsbankinn hefur stutt Gulleggið samfellt frá stofnun keppninnar árið 2008 og hefur þannig átt ríkan þátt í að skapa öflugan stökkpall fyrir frumkvöðla á hugmyndastigi. Í gegnum árin hafa fjölmörg farsæl sprotafyrirtæki stigið sín fyrstu skref í Gullegginu, þar á meðal Controlant, Meniga, PayAnalytics, Taktikal og Heima app.
„Gulleggið er einstakur vettvangur fyrir fólk sem vill prófa hugmyndir sínar, læra af öðrum og stíga fyrstu skrefin í frumkvöðlastarfi, að koma hugmynd á legg og byggja upp öflugt fyrirtæki er krefjandi ferli. Þar getur stuðningur á fyrstu stigum ráðið úrslitum. Landsbankinn skilur mikilvægi þess og hefur verið staðfastur bakhjarl Gulleggsins í nær tvo áratugi. Við erum afar þakklát fyrir stuðninginn og hlökkum til að halda þessu öfluga samstarfi áfram næstu árin.“
– Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri KLAK – Icelandic Startups.
„Landsbankinn hefur alla tíð lagt áherslu á að styðja við nýsköpun og frumkvöðlastarf sem skapar raunveruleg verðmæti fyrir samfélagið. Gulleggið er einstakur vettvangur þar sem hugmyndir fá að vaxa og taka á sig mynd, og við erum stolt af því að halda áfram að vera hluti af þeirri vegferð.“
– Hjalti Harðarson, forstöðumaður markaðsmál hjá Landsbankanum
Gulleggið fer fram árlega í upphafi árs og hefst í vikunni með Hugmyndahraðhlaupi Gulleggsins og Landsbankans, sem fram fer í höfuðstöðvum Landsbankans dagana 9.-10. janúar. Í kjölfarið tekur við Masterclass-námskeið þar sem þátttakendur þróa hugmyndir sínar áfram og undirbúa umsókn í lokakeppnina. Tíu teymi eru að lokum valin til þátttöku í lokakeppni Gulleggsins sem fer fram í Grósku þann 26. febrúar 2026.