KLAK og Tækniþróunarsjóður endurnýja samstarf sitt

KLAK – Icelandic Startups og Tækniþróunarsjóður hafa undirritað nýjan þriggja ára samning um Dafna, vinnustofur og mentoraþjónustu fyrir þá sem hljóta Sprota- og Vaxtarstyrk frá Tækniþróunarsjóði. Samningurinn tryggir áframhaldandi stuðning og markvissa handleiðslu fyrir nýsköpunarfyrirtæki á upphafs- og vaxtastigi og styrkir þannig innviði íslenska nýsköpunarsamfélags.
„Við erum stolt af Dafna verkefninu, sem sameinar markvissa fræðslu um uppbyggingu sprotafyrirtækja og sterkt tengslanet reyndra mentora, sérfræðinga og fjárfesta. Þetta samspil getur haft veruleg áhrif á árangur og aukið líkur á að fyrirtækin dafni og blómstri“, segir Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri KLAK.
„Við erum mjög ánægð með Dafna verkefnið og samstarfið við KLAK við að þróa það á síðustu árum. Það er búið að byggja upp öflugan hóp af mentorum sem eiga eftir að hjálpa styrkþegum Tækniþróunarsjóðs við að ná markmiðum sínum í framtíðinni. Stjórn sjóðsins ákvað að halda áfram með Dafna verkefnið því það eykur líkurnar á að styrkveitingar skili þeim ávinningi sem að er stefnt.“ segir Ágúst Hjörtur Ingþórsson, forstöðumaður Rannís.
Dafna er fjögurra mánaða vaxtarrými sem samanstendur af gagnvirkum vinnustofum og mentoraþjónustu frá KLAK VMS, byggðri á aðferðafræði MIT Venture Mentoring Service. Hver styrkþegi fær þrjá mentora sem mynda ráðgjafahóp og styðja teymið með reglulegum fundum á tímabilinu. Verkefnið er ætlað teymum sem hljóta Sprota- eða Vaxtarstyrk úr Tækniþróunarsjóði og er starfrækt tvisvar á ári í kjölfar vor- og haustúthlutana sjóðsins. Frá stofnun árið 2021 hafa 219 nýsköpunarverkefni og 430 frumkvöðlar tekið þátt í Dafna.
Samningurinn undirstrikar sameiginlega sýn KLAK og Tækniþróunarsjóðs um að byggja upp sterkt og opið vistkerfi nýsköpunar þar sem þekking, tengsl og reynsla eru nýtt til að hraða vexti sprotafyrirtækja og efla íslenskt nýsköpunarumhverfi enn frekar.