KLAK – Icelandic Startups hefur sett af stað KLAK health, fimm vikna viðskiptahraðal sem miðar að því að efla sprotateymi í heilsutækni.
Tíu teymi hafa verið valin til þátttöku í hraðlinum, og kynntu þau verkefnin sín í fyrsta sinn á kynningarviðburði í Höfuðstöðinni í dag.
Á viðburðinum kynntu teymin metnaðarfullar lausnir sem miða meðal annars að bættri heilbrigðisþjónustu, nýrri lyfjaþróun og gagnadrifinni lýðheilsu.
Teymin í KLAK health 2025:


Careflux
Gervigreind í skráningarvinnu: Skríban er gervigreindardrifin lausn sem að býr til fullkomnar klínískar nótur út frá upptöku viðtala.
Gleipnir BioForge
Bylting í „undruggable“ próteinum: Gleipnir Lífsmiðja er líftæknifyrirtæki sem opnar nýjar dyr í lyfjaþróun með byltingakenndri tækni sem finnur lausnir gegn þeim 80% sjúkdómsvaldandi próteinum sem hingað til hafa verið talin ólæknandi (e. undruggable).


Guide2Care
Stafrænn leiðarvísir um heilbrigðiskerfið: HeilsuDyr er stafrænn leiðarvísir um íslenska heilbrigðiskerfið, sem hjálpar almenningi að finna áreiðanlegar upplýsingar á einfaldan hátt.
LifeTrack
LifeTrack er heilsuapp sem einfaldar næringu, stuðlar að hreyfingu og bættum svefni auk jákvæðra venja.


Medvit Health
Greining í heilabilunum: Medvit health aðstoðar meðferðaraðila við sjúkdómsgreiningu á undirtegundum heilabilunar.
Mín vegferð
Sjúklingamiðuð umsjón: „Mín vegferð“ er stafræn lausn sem sameinar allt sem snýr að meðferð sjúklings – tíma, lyf, einkenni og samskipti – og veitir sjúklingum og aðstandendum betri yfirsýn og stuðning í gegnum alla vegferðina.


Mitoflux
Lyfjaskömmtun á nýjum forsendum: Mitoflux Rx einsetur sér að umbylta umhverfi lyfjaskömmtunar á Íslandi.
Rekovy
Stafrænn stuðningur í bata: Smáforritið Bati styður einstaklinga með fíknisjúkdóm í bataferlinu.


Rewire AI
Taltækni AI meðferð: Gervigreindarmeðferð sem byggir fyrst og fremst á röddinni og hjálpar fólki að endurraða kjarna tilfinningalegra mynstra – á öruggan og hagkvæman máta.
Vera Ráðgjöf
Lýðheilsuverkfærakista: Stafræn lausn sem greinir lýðheilsuþarfir, til að þróa sérsniðin inngrip og meta framvindu þeirra.

About the accelerator
KLAK health er sniðinn að þörfum heilsutæknisprota. Markmið hraðalsins er að hraða þróun sprotafyrirtækja í heilsutækni með því að veita þátttakendum sérhæfða fræðslu, einstaklingsmiðaða leiðsögn frá reyndum mentorum og skapa tengsl við fjárfesta og lykilaðila í vistkerfinu. Allt að tíu teymum er boðið að taka þátt í hraðlinum ár hvert og fá þannig einstakt tækifæri til að þróa hugmyndir sínar áfram með stuðningi sterkra bakhjarla.
Bakhjarlar hraðalsins eru Landspítali, Heilbrigðisráðuneytið, Íslandsbanki, Helix, Kerecis, Lifa VC, Veritas, Össur og Nox Medical. Þessi hópur sameinast um að efla íslenskt nýsköpunarumhverfi, skapa ný tækifæri fyrir sprotafyrirtæki og leggja sitt af mörkum til vaxtar og þróunar heilsutæknigeirans.