fbpx

Nýr samstarfssamningur Orkusölunnar og Gulleggsins hjá KLAK

Orkusalan og KLAK – Icelandic Startups hafa gert með sér samstarfssamning um stuðning Orkusölunar við Gulleggið, stærstu frumkvöðlakeppni Íslands, til næstu þriggja ára. Magnús Kristjánsson, forstjóri Orkusölunnar og Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri KLAK – Icelandic Startups undirrituðu samning þess efnis.

“KLAK vill greiða leið þeirra frumkvöðla sem vilja láta hugmyndir sínar verða að veruleika. Gulleggið er fyrsta skrefið á þeirri vegferð en mörg þekkt sprotafyrirtæki á Íslandi hafa hafið göngu sína í gegnum þessa 16 ára gömlu keppni, þar á meðal Taktikal, Controlant, Payanalitics og Pink Iceland. Það eru öflugir bakhjarlar eins og Orkusalan sem gera okkur hjá KLAK kleift að halda keppnina og við hlökkum til samstarfsins.” segir Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri KLAK – Icelandic Startups.   

„Við hjá Orkusölunni erum stolt af því að styðja við Gulleggið og taka þátt í því stuði sem fylgir því að styðja framtíð íslenskra frumkvöðla. Með þessu samstarfi viljum við leggja okkar af mörkum til að efla nýsköpun og sjálfbærni í íslensku atvinnulífi og gefa fleiri hugmyndum tækifæri til að blómstra. Orkusalan leggur áherslu á nýtingu endurnýjanlegrar orku og skapa ný tækifæri í framleiðslu til að tryggja sjálfbæra framtíð. Við hlökkum til að sjá þá spennandi sprota sem munu vaxa úr þessari frábæru keppni“, er haft eftir Magnúsi Kristjánssyni, forstjóra Orkusölunnar