fbpx

Forsetaframbjóðendur sameinuðu krafta sína

Hátíðarsalur Grósku var þéttsetinn þegar Halla Tómasdóttir og Andri Snær Magnason, rithöfundar og fyrrverandi forsetaframbjóðendur leiddu saman krafta sína á ný til að ræða hvernig við getum breytt samfélaginu til hins betra. Fékk KLAK tvíeykið til sín til að ræða innihald bókar Höllu, “Hugrekki til að hafa áhrif”, í tengslum við uppskeruhátíð Dafna.

Í bókinni deilir Halla reynslu úr lífi og starfi sem og sögum af fyrirtækjum og fólki sem hefur virkjað krafta sína til góðra verka og þannig náð bæði miklum árangri og fundið innri gleði.

Andri Snær hefur verið óhræddur að leggja til atlögu við viðtekin viðhorf í samfélaginu og heiminum. Með bókum sínum Draumalandið og Um tímann og vatnið hefur hann sett stór náttúruverndar- og umhverfismál í samhengi, gefið fólki orðfæri til að skilja og tjá tilfinningar sínar og hugsanir og eflt það til þátttöku í umræðum sem leiða til aðgerða. 

Í salnum í Grósku var svo fjöldi frumkvöðla, fjárfesta og mentora í sprotasamfélaginu.

Andri og Halla fóru yfir vegferð Höllu frá því að forsetaframboðinu lauk, en hún beið í 12 mánuði með að ákveða næstu skref og réð sig þá sem forstjóri B-Team, sem er samtök stjórnenda stórfyrirtækja sem hafa ákveðið að nota kraft sinn og sinna fyrirtækja til að gera heiminn betri.  Hún þurfti að berjast við eigin úrtöluraddir þegar hún var að berjast fyrir þessu starfi og beindi því til frumkvöðlanna í salnum að láta ekki þessar úrtöluraddir hefta sig og hafa hugrekki til að láta drauma sína rætast.

Spurningar úr salnum dundu á þeim Höllu og Andra og afar líflegar umræður sköpuðust um frumkvöðlastarf, mikilvægi gilda og þess að hafa eigin áttavita til að fylgja þegar taka þarf erfiðar ákvarðanir og hafa úthald í erfið verkefni.

Ég hef þá einlægu trú að allar framfarir byrji með einni manneskju sem hefur hugrekki til að hafa áhrif og fær fleiri með sér í lið. Um þetta snýst frumkvöðlastarfsemi, að virkja krafta sína til að leysa samfélagsleg vandamál og verkefni í samstarfi við aðra. Einstaklingar og fyrirtæki sem leggja af stað í slíka vegferð með skýra sýn á sinn tilgang og gildi ná lengra, skila betri arðsemi til lengri tíma litið og leggja meira af mörkum til framþróunar okkar samfélags, sem sannarlega þarf á hugrekki að halda til að hugsa svo margt uppá nýtt,” sagði Halla. 

Ég var mjög hræddur þegar Draumalandið kom út.  Ég vissi að ég var að storka sterkum öflum í samfélaginu og vissi ekkert hver viðbrögðin yrðu.  En ég fann að ég varð að segja þessa sögu” sagði Andri um þá áskorun að ganga gegn ríkjandi viðhorfum.

Ef við veljum að taka þátt, gera gagn og láta gott af okkur leiða, þá eru í reynd okkar björtustu tímar framundan. Þegar ég hlusta á alla þessa hugrökku leiðtoga sem eru saman komin hér í Grósku, þá veit ég að framtíðin er björt,” sagði Halla.

Þetta var stórkostlegt samtal og í lok viðburðarins risu áhorfendur úr sætum og þökkuðu Höllu og Andra með dynjandi lófataki.  Fólk fór ríkara út og hafði nóg að hugsa um úr boðskap þeirra Höllu og Andra.

Ljóðskáldið Mary Oliver spurði: Segðu mér, hvað ætlar þú að gera við þitt eina, villta og verðmæta líf? Þarna brýnir hún fyrir okkur að mikilvægasta valið í lífinu felst í því að velja meðvitað hvað við gerum við sköpunargáfu okkar, starfskrafta og takmarkaðan tíma. Ég fyllist ávallt aðdáun yfir hugrekki frumkvöðla sem kjósa að skapa eitthvað nýtt og virkja krafta sína til að gera samfélagið okkar eilítið betra í dag en í gær. Hugrekkið er hreyfiaflið sem færir einstaklinga, fyrirtæki og samfélög í átt til framtíðar,“ segir Halla Tómasdóttir.

is_ISIcelandic