Klak hjálpar frumkvöðlum að raungera hugmyndir sínar, fjölgar sprotafyrirtækjum sem byggja á hugviti og eykur þannig sjálfbæra verðmætasköpun Íslands. Við hjálpum sprotafyrirtækjum að vaxa innanlands og út fyrir landsteinana með því að hraða þróun þeirra og tengja þau við sérfræðinga, fjárfesta og aðra lykilaðila. Klak hefur fyrir löngu skipað sér sess sem lykilaðili í stuðningsumhverfi nýsköpunar á Íslandi og leggur sig fram við að vera leiðandi afl í grasrót frumkvöðlasamfélagsins.
Hlutverk
Klak er óhagnaðardrifið félag í eigu Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík, Origo, Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og Samtaka iðnaðarins. Hlutverk Klaks er að stækka og styðja við samfélag frumkvöðla á Íslandi með það að markmiði að fjölga sprotafyrirtækjum.
Klak aðstoðar frumkvöðla frá fyrstu skrefum og hefur haldið Gulleggið, stærstu frumkvöðlakeppni landsins frá árinu 2008. Gulleggið er keppni á hugmyndastigi og kjörinn vettvangur fyrir frumkvöðla sem eru að hefja sína vegferð.
Klak keyrir árlega 3-4 viðskiptahraðla með mismunandi áherslum og eru þeir hugsaðir fyrir teymi sem eru komin vel af stað í vöruþróun.
Klak er í virku samstarfi við Tækniþróunarsjóð og tekur tvisvar á ári á móti styrkþegum Sprota í vikulanga vinnustofu auk þess sem Klak tengir styrkþega við viðeigandi mentora sem fylgja þeim eftir í 6 mánuði.
Alþjóðlegt starf
Áhersla er lögð á aðstoð við undirbúning sprotafyrirtækja fyrir alþjóðlegan vöxt og fjármögnun. Stór hluti af því snýr að því að efla samstarfið við leiðandi sprotasamfélög erlendis með markvissum hætti og vekja athygli á framúrskarandi íslenskum sprotum fyrir erlendum fjárfestum og fjölmiðlum.
Klak er í virku alþjóðlegu samstarfi og eru viðskiptahraðlar hluti af GAN – Global Accelerator Network. Klak er einnig hluti af Nordic Scalers og Nordic Made auk þess sem alþjóðafulltrúi okkar er varafulltrúi í stjórn Nordic Innovation.
Sagan
Klak var stofnað árið 2000 og sameinaðist Innovit árið 2013. Sameinað félag fékk nafnið Klak Innovit, síðar Icelandic Startups og nú aftur Klak – Icelandic Startups. Yfir langa sögu fyrirtækisins hafa hundruðir frumkvöðla farið í gegnum hraðla eða tekið þátt í frumkvöðlakeppninni Gullegginu.