fbpx

Grænn viðskiptahraðall kynntur 2021

Ísland hefur skýrt forskot með framboði af endurnýjanlegri orku og einstakt tækifæri til að skipa sér í forystu á alþjóðavísu í umhverfismálum.

Með því að efla stuðning við sjálfbæra nýsköpun og þróun nýrra lausna á sviði umhverfis- og loftslagsmála má jafnframt stuðla að auknu útflutningsverðmæti sem byggir á hugviti. Markmið Græns hraðals er að á Íslandi rísi stór og stöndug fyrirtæki sem byggja á hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins, skapi störf og skili árangri í umhverfismálum

Nýjum viðskiptahraðli er ætlað að draga fram, efla og styðja nýja tækni og aðferðir sem raunverulega leysa aðsteðjandi úrlausnarefni í umhverfismálum með það fyrir augum að þátttakendur verði í lok hraðals í stakk búin til að kynna verkefni sín fyrir fjárfestum og sækja styrki í Evrópusjóði sem styðja verkefni sem draga úr losun.

Viðskiptahraðallinn byggir á alþjóðlegri fyrirmynd og býður upp á metnaðarfullan vettvang til vöruþróunar og góðan undirbúning fyrir fjármögnun. Þungamiðjan í hraðlinum felst í skipulöðgum fundum þátttakenda með reyndum frumkvöðlum, fjárfestum og öðrum sérfræðingum. Um er að ræða sannreynt ferli þar sem allt að tíu sprotaverkefnum er veittur aðgangur að breiðu tengslaneti leiðbeinenda úr atvinnulífinu og markvissri þjálfun sem miðar að því að koma vöru á markað.

Að verkefninu standa Reykjavíkurborg, Orkuveitan og Faxaflóahafnir auk Þróunarfélags Grundartanga og á Breið. Umsjón með hraðlinum er í höndum Icelandic Startups sem hefur til fjölda ára veitt aðstoð við þróun viðskiptahugmynda og leitt saman hóp hagaðila með verðmætasköpun að leiðarljósi.

Óskað er eftir öflugum teymum með hugmyndir sem byggja á hringrásarhagkerfinu og styðja við forystu Íslands í umhverfis og loftslagsmálum. Hraðallinn á jafnt við sjálfstæð teymi og þau sem starfa innan rótgrónari fyrirtækja.

Stýrihópur ræðir faglegar áherslur

Sérstakur stýrihópur hefur verið myndaður um verkefnið þar sem sæti eiga fulltrúar bakhjarla. Á þeim vettvangi eru m.a. ræddar faglegar áherslur verkefnisins og línur lagðar fyrir framkvæmd þess. Stýrihópur verkefnisins tekur jafnframt þátt í yfirferð umsókna og vali á þeim viðskiptahugmyndum sem býðst þátttaka í hraðlinum. Auk þess verða skipaðir faghópar um sérstaka anga verkefnisins, sem dæmi orkuskipti og kortlagningu Evrópustyrkja.

Hefst vorið 2021

Formlegur samstarfssamningur um verkefnið var undirritaður í morgun, en áætlað er að opnað verði fyrir umsóknir í janúar og að hraðallinn hefjist strax á vormánuðum 2021.

Við tilefnið ávörpuðu viðstadda Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar auk Kristínar Soffíu Jónsdóttur, formanns stýrihóps verkefnisins.

is_ISIcelandic