fbpx

10 sprotafyrirtæki í Startup SuperNova 2022 

KLAK – Icelandic Startups og Nova nafngreindu þau 10 teymi sem komust áfram í viðskiptahraðalinn Startup SuperNova 2022 á Kex hostel í kvöld við mikinn fögnuð viðstaddra. Það hefur verið mikil eftirvænting og mikil spenna hefur verið í loftinu frá því Startup SuperNova Masterclass byrjaði með miklum látum í júní síðastliðinn þar sem 53 umsóknir bárust. Fjölmenni fylgdist með þegar Jónas Óli Jónasson, stofnandi og framkvæmdastjóri Stubbs bauð öll velkomin á Kex hostel við mikinn fögnuð viðstaddra en hann fór yfir reynslu og upplifun teymsins í Startup SuperNova. 

Startup SuperNova er stökkpallur fyrir sprotafyrirtæki og einstakur vettvangur til tengslamyndunar við aðila í atvinnulífinu, reyndum mentorum og frumkvöðlum sem hafa yfir að ráða lykilþekkingu á viðkomandi tækni eða geira. Þar má nefna sterkar fyrirmyndir úr sprotaumhverfinu, Controlant og Plaio sem hafa gert það gott eftir að hafa tekið þátt í Startup SuperNova.

Það ríkir mikil gróska í nýsköpun á Íslandi um þessar mundir og hefur íslenski markaðurinn ekki farið varhluta af því sem er að gerast í sprotaumhverfinu. Grasrótin er orðin gríðarlega öflug og hefur KLAK skipað sér sess sem lykilaðili í stuðningsumhverfi nýsköpunar á Íslandi og hefur lagt sig fram við að vera leiðandi afl í grasrót frumkvöðlasamfélagsins. Þungavikta konur og menn úr viðskiptalífinu hafa verið viðloðandi sprotaumhverfisins frá upphafi og einn þeirra sem þekkir vel til er Guðjón Már Guðjónsson sem jafnan er kenndur við Oz en hann er stjórnarformaður Mindnes, eins teymsins sem komst áfram i Startup SuperNova.

Hraðallinn er samstarfsverkefni KLAK – Icelandic Startups og Nova þar sem leitast er við að byggja upp viðskiptalausnir ætlaðar alþjóðamarkaði með sannreyndri aðferðafræði og áralangri reynslu KLAK – Icelandic Startups af stuðningi við frumkvöðla og sprotafyrirtæki.  

Þau teymi sem komust áfram eru eftirfarandi:

Bulby

Bulby er hugbúnaðarlausn sem byggir á rannsökuðum aðferðum til að efla sköpunargleði og hjálpa fólki að fá fleiri og meira skapandi hugmyndir til að leysa hin ýmsu vandamál. Aukin sköpunargleði getur ýtt undir bæði persónulegan og viðskiptalegan árangur, sem er sérstaklega mikilvægt núna þegar rannsóknir sýna að sköpunargleði er að minnka og eftirspurn er að aukast. 

Deed Delivery

Deed er fyrsti neytendamiðaði samskiptavettvangur fyrir pakkasendingar. Með Deed geta neytendur fylgst með öllum sínum sendingum á einum stað óháð því hvaða fyrirtæki sér um afhendingu. Í stað þess að þurfa að sækja allar upplýsingar á marga mismunandi staði geta neytendur og sendingafyrirtæki átt samskipti og haft yfirsýn með sendingum með Deed.

Euneo

Við viljum auka lífsgæði einstaklinga sem glíma við stoðkerfisvandamál með því að veita þeim aðgang að einstaklingsmiðaðri endurhæfingaráætlun og fræðslu unna af heilbrigðisstarfsmönnum. Snjallforritið okkar leiðir notendur í gegnum endurhæfingarferlið með því að hjálpa þeim að fylgjast með uppáskrifuðum æfingum og árangri og með því að veita þeim skýra og hnitmiðaða fræðslu um ástand sitt.

FitTales

FitTales er smáforrit fyrir einstaklinga og hópa sem vilja skipuleggja hreyfinguna sína fyrirfram og hafa alla sína hreyfingarsögu á einum stað.

Keeps

Keeps er hugbúnaðarlausn sem gerir ferðaþjónustuaðilum kleift að halda utan um allar sínar myndir á einum stað og deila myndum þaðan á helstu bókunarsíður og samfélagsmiðla. Lausnir Keeps snúa að einföldun ferla sem sparar ferðaþjónustuaðilum tíma, eykur sýnileikann hjá bókunarsíðunum og um leið söluna.

LevelUp

LevelUp gerir fólki auðveldara að stunda fjölbreytta hreyfingu og áhugamál á aðgengilegri máta.

Mindnes

Mindnes er sjálfvirkt tímaskráningar-app með gervigreind. Nóg er að innsetja appið og svo þarf notandinn ekkert að gera meira til að Mindnes byrji að flokka og skrá staðssetningar bæði innan- og utanhúss. Appið býr sjálfkrafa til hitamyndir af því rými sem starfsmaður er inni í. Við bjóðum upp á ókeypis útgáfu sem er mjög áhugaverð en Premium útgáfan er seld í áskrift sem “addon” app fyrir öll vinsælustu verk og bókhaldskerfi heims svo sem Tempo, Sap, Oracle, Sage, Asana, Microsoft Dynamics 365 o.fl.   

NúnaTrix

NúnaTrix sérhæfir sig í gerð kennslutölvuleikja innan heilbrigðisgeirans, serious gaming en þar fléttast saman gagnreynd þekking innan hjúkrunar, læknisfræði, sálfræði, tölvuleikjafræði og hönnunnar til að búa til kennslutölvuleiki sem nýtast til fræðslu hjá bæði börnum og fullorðnum.  

Opus Futura

Veflausn sem hjálpar fjárfestum, fyrirtækjum og einstaklingum að spila betur saman á vinnumarkaði framtíðarinnar.

Sundra

Sundra er hugbúnaðarlausn sem einfaldar og sjálfvirkivæðir sköpun markaðsefnis. Notandinn þarf einungis að taka upp eitt myndband og Sundra umbreytir því í bloggfærslur, hljóðvörp, youtube myndband og séraðlagað efni fyrir hvern og einn af samfélagsmiðlunum.

KLAK og Nova þakkar öllum umsækjendum í Startup SuperNova í ár og hvetja öll að halda áfram á þeirri vegferð sem þau eru á og ekki gefast upp.  

is_ISIcelandic