fbpx

Fjárfestar hrósuðu vonarstjörnum Hringiðu

Lokadagur viðskiptahraðalsins Hringiðu í umsjón KLAK – Icelandic Startups var haldinn hátíðlegur 5. maí en við það tilefni sendi Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra ávarp með hvatningu til allra sprota, frumkvöðla, mentora og fjárfesta um mikilvægi nýsköpunar. Rithöfundurinn Andri Snær Magnason opnaði viðburðinn að borgarstjóra Reykjavíkur, Degi B. Eggertssyni viðstöddum, sprotafyrirtækjum og um 20 af helstu fjárfestum landsins ásamt öðru áhrifaríku fólki úr viðskiptaheiminum. 

Það er frábært að fylgjast með Hringiðu og þeim verkefnum sem kynnt voru á uppskerudeginum. Greinilega hefur tekist vel að búa til góða og styðjandi umgjörð og laða líka að gott fólk og góðar hugmyndir sem eru lykillinn að árangri.”, segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri. 

Vonarstjörnur hringrásarhagkerfisins hafa setið sex vikna vinnustofur, fyrirlestra og fundað með sérvöldum mentorum úr KLAK VMS, kynntu lausnir sínar um aðsteðjandi úrlausnarefni í umhverfismálum.

Það þarf að endurhanna og endurhugsa alla arfleifð 20. aldar til að þessi öld verði lífvænleg. Hringrásarhagkerfið er einn lykillinn og við erum bara búin með nokkrar gráður af 360 gráðu hring – Öll fjárfesting sem er ekki í hringrásarhagkerfi er dautt fé”. Segir Andri Snær Magnason rithöfundur. 


Melta, Munasafn RVK Tool Library, Mar Eco, Orb, Bambahús, Resea Energy og Alor, komu fram fyrir gestum viðburðarins og sérvalinn panel sem var skipaður Nönnu Elísu Jakobsdóttur hjá Samtökum iðnaðarins og Mörtu Hermannsdóttur hjá Eyri. Varpað var fram spurningum um lausnir sprotana við brýn úrlausnarefni sem liggja fyrir í umhverfismálum sem hvatning um að halda áfram að byggja upp sprotafyrirtækið.

Fyrirtækin sem tóku þátt í Hringiðu í fyrra hafa náð miklum árangri í kjölfar hraðalsins. Sem dæmi hafa þau safnað tæplega 180 milljónum úr innlendum sjóðum, eitt fyrirtækjanna tók inn fjármagn frá VC sjóði og annað hlaut stóran Evrópustyrk. Í ár tóku sjö fyrirtæki þátt og verður ánægjulegt að fylgjast með vegferð þeirra eftir að hraðlinum lýkur.” Segir Kolfinna Kristínardóttir, verkefnastjóri Hringiðu.

Alor vinnur að þróun og framleiðslu á umhverfisvænum álrafhlöðum og orkugeymslum af mismunandi stærðum þ.e. frá litlum rafhlöðum og rafgeymum yfir í stórar orkugeymslur í gámastærðum.

Mar Eco stendur fyrir Marine Ecolocial Solutions en markmiðið er að vinna að umhverfisvænum lausnum í framleiðslu og notkun veiðarfæra. Endurunnið plastrusl úr sjó, bláa hagkerfið og umhverfisvænar veiðar. 

Orb þróar tækni til að mæla kolefnisbindingu skóga á ódýran og aðgengilegan hátt til að stuðla að ábyrgri kolefnisjöfnun og framleiðslu vottaðra kolefniseininga.

Munasafn RVK Tool Library útvegar stjórnvöldum og sveitarfélögum vélbúnaðar- og hugbúnaðarlausn til að hagræða lántöku frá staðbundnum bókasöfnum þeirra.

Resea Energy er rannsóknar- og þróunarfyrirtæki sem stefnir á framleiðslu á lífeldsneyti úr hrati frá ræktuðu þangi.

Bambahús eru gróðurhús sem stuðlar að eflingu hringrásarhagkerfisins þar sem endurnýttar eru vökvaumbúðir sem annars væru fluttar úr landi og urðaðar. Húsin eru létt, traust, fyrnasterk og sérhönnuð með íslenskt veðurfar í huga.

Bakhjarlar Hringiðu eru Reykjavíkurborg, Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Orkuveita Reykjavíkur, Faxaflóahafnir, Terra, Ölgerðin og Samtök iðnaðarins. Samstarfsaðilar Hringiðu eru Rannís, Breið þróunarfélag, Evris, Sjávarklasinn, Orkuklasinn og Grænvangur. Eigendur KLAK eru Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Origo, Samtök iðnaðarins og Nýsköpunarsjóður. 

Ljósmyndari: Eygló Gísladóttir

is_ISIcelandic