fbpx

Freyr tekur sæti í stjórn Nordic Innovation

Freyr Friðfinnsson, alþjóðafulltrúi KLAK – Icelandic Startups hefur tekið sæti í stjórn Nordic Innovation en Freyr hefur verið varafulltrúi þar síðan 2021. 

Nordic Innovation er stofnun sem heyrir undir Norrænu ráðherranefndina og stefnir að því að gera Norðurlöndin að brautryðjendum fyrir sjálfbæran vöxt með því að efla frumkvöðlastarf, nýsköpun og samkeppnishæfni norrænna fyrirtækja. Að auki er markmið Nordic Innovation að styrkja sameiginlega norræna stefnu, bæta alþjóðlegan sýnileika og gildi norrænna vörumerkja. Stofnunin vinnur að framkvæmd stefnu norrænu forsætisráðherranna; að Norðurlönd verði sjálfbærasta og samþættasta svæði í heimi árið 2030.

Freyr Friðfinnsson er með mastersgráðu í frumkvöðla- og nýsköpunarstjórnun frá Kungliga Tekniska Högskolan (KTH) í Stokkhólmi og hefur hlotið þjálfun hjá MIT Venture Mentoring Service í Boston. Kom hann að stofnun KLAK VMS eða KLAK Venture Mentoring Service fyrr á þessu ári.

Leiðir Freyr fyrir hönd KLAK samnorrænt samstarfsverkefni sem kallast VC Challenge og hefur að markmiði að þjálfa næstu kynslóð sjóðsstjóra og er tengiliður við samnorræna TINC Silicon Valley viðskiptahraðalinn sem fram fer tvisvar á ári í Kísildalnum. Freyr hefur verið áberandi í sprotaumhverfinu á Íslandi og hefur hlúð að vistkerfi nýsköpunar- og frumkvöðlastarfs með því að hjálpa sprotum að vaxa og dafna. Að auki hefur hann verið leiðandi í að tengja aðila í atvinnulífinu við sprotaumhverfið, bæði hérlendis og erlendis. 

is_ISIcelandic