fbpx

Gulleggið opið öllum i fyrsta sinn!

Gulleggið er frumkvöðlakeppni á hugmyndastigi sem haldin hefur verið af Icelandic Startups síðan 2008. Gulleggið er stærsta keppni sinnar tegundar á Íslandi og eru árlega sendar inn yfir 200 viðskiptahugmyndir. Gulleggið var flutt af hausti og fram í janúar og samhliða því var verið að gera talsverðar breytingar á keppninni.

Frítt er að senda hugmynd í keppnina. Vinnusmiðjur fyrir alla þátttakendur fara svo fram eftir að skráninug er lokið. Fjöldi reyndra frumkvöðla og sérfræðinga munu taka þátt í vinnusmiðjunum og þar munu keppendur læra að móta hugmyndina og búa til svokallað „pitch deck“ eða stutta glærukynningu sem tekur á öllum þáttum hugmyndarinnar.

Hingað til hefur verið gerð krafa um að einn í teyminu hafi verið í háskólanámi á seinustu fimm árum eða sé í virku námi en í ár verður fallið frá því og er keppnin því í fyrsta sinn opin öllum.

Huld Magnúsdóttir, stjórnarformaður Icelandic Startups: “Þar sem Gulleggið hefur sýnt sig að vera mikilvægt fyrsta skref marga frumkvöðla var ákveðið að opna keppnina fyrir fleirum og gefa þannig sem flestum tækifæri á að nýta sér aðstoðina sem Gulleggið veitir.

Áfram verður lögð rík áhersla á að þetta sé hugmyndakeppni og mega keppendur ekki hafa tekið inn fjármagn umfram 2 milljónir króna eða byrjað að hafa tekjur af hugmyndinni.

Í kjölfarið munu þátttakendur geta sent sína kynningu inn í keppnina og mun fjölskipuð dómnefnd velja 10 bestu kynningarnar. Þeim hópi verður síðan boðið aftur í kraftmikla vinnuhelgi sem fer fram helgina 29.-30. janúar og eftir hana eiga keppendur að vera tilbúnir til að standa uppi á sviði og selja sína hugmynd af öryggi. Lokakeppnin fór fram í Grósku þann 4. Febrúar og var hún jafnframt í beinni útsendingu á Stöð 2 Vísi og á vefsíðu Gulleggsins.

Ása María Þórhallsdóttir, verkefnastjóri Gulleggsins: “Við erum spennt fyrir þessum breytingum og bjartsýn á að þetta muni auka þátttöku og sýnileika keppninnar.

Gulleggið er frábært fyrir frumkvöðla sem eru að stíga sín fyrstu skref og dæmi um fyrirtæki sem hafa tekið þátt í Gullegginu eru Controlant, Meniga, Pay Analytics, Heima og Solid Clouds. Verðlaunin eru ekki af verri endanum, Landsbankinn veitti aðalverðlaunin sem eru 1 milljón króna og auk þess eru fjöldi auka verðlauna. KPMG, Huawei og Vörður tryggingar styrktu teymi sem kepptu á loka degi.

is_ISIcelandic