fbpx

Ísland viðheldur forskoti í umhverfisvænum lausnum

Viðskiptahraðallinn Hringiða verður haldinn í annað sinn í vor en um er að ræða verkefni á vegum KLAK – Icelandic Startups og er hraðalinn helgaður hringrásarhagkerfinu. 

Kristín Soffía Jónsdóttir, framkvæmdastjóri KLAK, segir umræðuna um hringrásarhagkerfið hafa náð miklu flugi enda sé um að ræða hugtak sem sameinar margra hópa og mörg baráttumál. “Þegar sjálfbærni og umhverfismál ber á góma má iðulega heyra gagnrýnisraddir sem þykir nálgunin úr tengslum við raunhagkerfið og boðaðar lausnir ekki mikið meira en áhugamál fjársterkustu fyrirtækja; að venjulegt fólk, fyrirtæki og frumkvöðlar hafi um annað að hugsa og þurfa að eiga í sig og á. En hringrásarhagkerfið byggir á annarri sýn og snýst ekki síst um að skapa ný störf og búa til verðmæti.”

Sem gott dæmi um hverju nálgun hringrásarhagkerfisins getur áorkað nefnir Kristín þann árangur sem náðst hefur í nýtingu hliðarafurða í íslenskum sjávarútvegi. “Þar var mörkuð sú stefna að fullnýta aflann og upp úr því urðu til ný fyrirtæki sem framleiða kollagen, lyf og lækningavörur úr hráefni sem áður var því sem næst verðlaust. Þessi mikla áhersla á að lágmarka sóun birtist líka í fiskvinnslulausnum fyrirtækja eins og Marels sem hönnuðu sjálfvirkar lausnir til að verka fiskinn enn betur og búa til um leið til betri og verðmætari vöru.”

Segir Kristín að víða í íslensku atvinnulífi og samfélagi sé hringrásarhagkerfið rétt að byrja að taka á sig mynd og ótal viðskipta- og nýsköpunartækifæri handan við hornið. “Mikil verðmæti eru fólgin í alls kyns auðlindum sem við erum ekki að fullnýta og áætlar t.d. Terra umhverfisþjónusta að Ísland fari á mis við um 9.000 störf útaf vannýttum tækifærium í hringrásarhagkerfinu.”

Verða reiðubúin að sækja evrópska sjóði

Hringiða setur markmiðið hátt og segir Kristín að einkum sé leitað að Lækni- og þekkingarsprotum sem fást við djúptækni eða hátækni og státa af nýnæmi í lausnum sínum og útfærslum. “Við viljum sjá verkefni sem eru lengra komin, og erum alveg sérstaklega að leita að verkefnum eða fyrirtækjum sem skilgreina sig á TRL-skalanum sem “4+”, þ.e.a.s. eru þegar komin með frumgerð að nýrri vöru.” 

Bakhjarlar Hringiðu eru Orkuveita Reykjavíkur, umhverfis- og orkumálaráðuneytið, Reykjavíkurborg, Sorpa, Terra, Faxaflóahafnir, Samtök iðnaðarins og Ölgerðin. 

Að hraðlinum loknum eiga þátttakendur að vera í stakk búnir að sækja um Evrópustyrki, meðal annars LIFE-stryki, þar er á ferð samstarfsáætlun ESB sem byggir á hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins. Verða að allt að tíu teymi valin í hraðalinn en frestur til að sækja um rennur út 4. apríl næstkomandi. Geta bæði einstaklingar og sprotafyrirtæki teki þátt í hraðlinum, en einnig hringrásartengd verkefni innan fyrirtækja eða stofnana. 

Ísland hefur forskot sem þarf að viðhalda

“Við lítum einnig á hraðalinn sem samstarfsvettvang fyrir hringrásarfyrirtæki á Íslandi þar sem einstaklingar úr fyrirtækjum og stofnunum geta kynnst öðru fólki sem hefur brennandi áhuga á og vinnur innan hringrásarhagkerfisins,” segir Kristín og bætir við að virkilega áhugaverð viðskiptatækifæri sé að finna á þessu sviði: “Umhverfis- og loftlagsmálin eru ekki að fara af dagskrá í bráð og fyrir framtakssamt fólk má líta á það sem óþrjótandi auðlind að finna nýjar lausnir sem miða að því að leysa aðkallandi umhverfisvandamál. Þetta er líka svið þar sem Ísland hefur á vissan hátt náttúrulegt forskot og erum við t.d.löngu búin að leysa okkar húshitunarvanda á meðan aðrar þjóðir glíma núna við að leita lausna til að þurfa ekki lengur að reiða sig á að kynda með jarðgasi. Við þurfum að halda áfram að byggja upp hugvit innan hringrásarhagkerfisins og þannig auka þetta forskot okkar. Myndi það bæði fjölga stoðum atvinnulífsins og leggja grunninn að nýjum verðmætaskapandi fyrirtækjum en líka vera framlag okkar til heimsins í baráttunni við þá vá sem steðjar að.”  

Viðtal birtist í Morgunblaðinu 21. mars 2022

is_ISIcelandic