fbpx

Knittable er framlag Íslands í Creative Business Cup 2024 

Forkeppni Creative Business Cup var haldin í fyrsta skipti á Íslandi síðastliðinn föstudag og sprotafyrirtækið Knittable bar sigur úr býtum. Nanna Einarsdóttir, stofnandi sprotans mun keppa um titilinn fyrir bestu hugmyndina í lokakeppni Creative Business Cup 2024 í Kaupmannahöfn í júní næstkomandi. Að launum hlaut Knittable flug til Kaupmannahafnar og gistingu en forkeppnin var haldin á vegum KLAK – Icelandic Startups og Íslandsstofu.

Creative Business Cup á sér 12 ára sögu þar sem skapandi sprotafyrirtæki frá yfir 80 löndum keppa um titilinn fyrir bestu hugmyndina. Keppnin laðar að sér skapandi sprotastjörnur frá öllum hornum heimsins, og fer fram í Kaupmannahöfn ár hvert. Forkeppnir hafa nú þegar verið haldnar víða um heim en á síðasta ári var það sprotafyrirtækið NEBESYS frá Tékklandi sem hlaut vinninginn sem besta hugmyndin.

Íslensku dómararnir sem dæmdu í forkeppninni voru Haukur Guðjónsson, stofnandi Sundra en hann keppti fyrir hönd Íslands í Creative Business Cup 2023 og lenti í einu af tíu efstu sætunum, Hrönn Greipsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og Sigríður Heimisdóttir, hönnuður hjá Hugviti og hönnun.

Sprotafyrirtækið Knittable tók þátt í viðskiptahraðlinum Startup SuperNova árið 2023 en KLAK – Icelandic Startups rekur þann hraðal í samstarfi við fjarskiptafyrirtækið NOVA. Knittable teymið skipa þau Nanna Einarsdóttir, stofnandi, Renata Blöndal, Leonie Karn og Magnús Elvar Jónsson.

Sprotafyrirtækin sem kepptu í forkeppninni voru Knittable, Bulby, Livey, Circular Library Network, Bambahús og Surova.

is_ISIcelandic