fbpx

Reykjavíkurborg styrkir Hringiðu

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Kristín Soffía Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandic Startups, undirrituðu samstarfssamning sem miðar að því að efla frumkvöðlastarfsemi sem byggir á hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins. 

Markmiðið að efla frumkvöðlastarfsemi og nýsköpun

Reykjavíkurborg skuldbindur sig til að greiða 10 milljónir vegna framkvæmdar á viðskiptahraðlinum Hringiðu og 2.5 milljónir króna vegna Gulleggsins sem er elsta og stærsta frumkvöðlakeppni landsins. 

Markmið samningsins er að efla frumkvöðlastarfsemi og veita Reykjavíkurborg tækifæri til að hafa áhrif á stefnu stuðningsverkefna við nýsköpun m.a. með það fyrir augum að hvetja til nýrra lausna á áskorunum sem borgin stendur frammi fyrir.

Reykjavíkurborg fær í gegnum samninginn tvo fulltrúa í stýrihóp Hringiðu viðskiptahraðals og tækifæri til að leggja fram tillögur um áherslur og framkvæmd.

Þá mun borgin fá tækifæri til að taka þátt í því með Icelandic Startups að halda viðburði fyrir háskólasamfélagið í Reykjavík vegna Gulleggsins.

Að sögn Kristínar Soffíu Jónsdóttur framkvæmdastjóra Icelandic Startups er mikil gróska í nýsköpun á Íslandi. ,,Heildarfjármögnun Icelandic Startups nam í fyrra um 140 milljónum króna en á sama tíma hafa þau fyrirtæki sem tóku þátt í okkar verkefnum safnað yfir 600 milljónum í fjármögnun. Það þýðir að hver króna skilar sér fjórfalt til baka. Auk þess vinna fjölmörg þessara fyrirtækja að lausnum á aðsteðjandi loftslagsvanda og má þar nefna IceWind, Hemp Pack og SoGreen sem dæmi svo ávinningur er mikill.“

Samningurinn er til tveggja ára og var hann undirritaður í kaffihléinu á fundi Reykjavíkurborgar um Græna planið og grænar fjárfestingar sem haldinn var í Ráðhúsi Reykjavíkur í morgun.

Birt á vef Reykjavíkurborgar 11. febrúar 2022.

is_ISÍslenska