fbpx

Ríflega 900 manns sýndu Þráðaþoninu áhuga

Frumkvöðlar innan textílgeirans flyktust í Grósku á dögunum vegna lausnamóts sem bar yfirskriftina Þráðaþon. KLAK – Icelandic Startups stóð fyrir lausnamótinu í samstarfi við Hringrásarklasann og Textílmiðstöðina með stuðningi frá Umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytinu. Landspítalinn, 66°Norður, Dive og Sorpa kynntu þær áskoranir sem fyrirtækin standa frammi fyrir varðandi sóun textíls og kölluðu eftir lausnum við þeim.

Ríflega 900 manns sýndu lausnamótinu áhuga en 60 þátttakendur víðsvegar að af landinu tókust á við áskoranir fyrirtækjanna og margar framúrskarandi lausnir komu fram. 

“Hringrásaklasinn styður nýskapandi fyrirtæki í að efla hringrásarhagkerfið og breyta úrgangi í auðlindir. Það er því einstaklega gaman að hitta allt þetta frábæra fólk með ástríðu fyrir einmitt þessu og sjá þeirra frábæru lausnir. 

Textíll er einn af þeim stóru úrgagnsstraumum sem eiga sér fáa eða lélega endurvinnslufarvegi svo nýsköpun er nauðsynleg til að taka á vandanum. Það var gaman að sjá hvað lausnirnar voru margbreytilegar – gátu stutt við það að minnka magn af textíl sem fer inn í kerfið, hægt á honum í kerfinu með lengingu líftíma og vitundavakningu auk þess að fram komu lausnir sem að endingu taka það sem annars hefði orðið úrgangur og breyta í gagnlega vöru,” er haft eftir Þorbjörgu Söndru Bakke verkefnastjóra Hringrásarklasans.

“Við hjá KLAK – Icelandic Startups leggjum okkur fram við að vera leiðandi afl í grasrót frumkvöðlasamfélagsins og hugmyndasmiðjur eins og Þráðaþon eru frábær leið til að kalla fram spennandi nýsköpunarhugmyndir sem leysa áskoranir samtímans. Það var mikill áhugi á þessum viðburði og þau 60 sæti sem í boði voru fylltust strax. Það er ljóst að sóun textíls er frumkvöðlum hugleikin. Það var líka gleðilegt að heyra að mörg þeirra sem bjuggu til teymi í kringum lausn hafa hug á að taka þátt í Gullegginu, stærstu frumkvöðlakeppni Íslands og flaggskip KLAK – Icelandic Startups. Það voru líka nokkur teymi sem hafa áhuga á að sækja sæti í Hringiðuhraðlinum sem einnig er í umsjón KLAK og byggir á hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins og er því bein tenging við Þráðaþonið”, segir Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri KLAK – Icelandic Startups. 

Aðsóknin var langt fram úr væntingum en skráðir þátttakendur fengu að tækifæri til að efla sig í að koma spánýjum hugmyndum í framkvæmd og vinna gagngert að því að gera verkefni að veruleika, móta glærukynningu og kynna fyrir dómurum. Dóm­nefnd kom úr röðum samstarfsfyrirtækja Þráðaþonsins sem fóru ítarlega yfir all­ar þær lausnir sem kynntar voru. Það var að lokum Flöff textílendurvinnsla sem hlaut fyrsta sætið og fékk teymið að launum 200 þúsund kr peningaverðlaun, gjafabréf í Góða Hirðinn, 5 daga gistingu og aðstöðu hjá Textílmiðstöðinni á Blöndósi og veglega hönnun eftir Einar Guðmundsson úr Góða Hirðinum.

Frumkvöðlateymið sem hlaut sérstök verðlaun frá 66°Norður var Hin fullkomna bót. Veitt var viðurkenning fyrir framúrskarandi hugmynd og varð Velja fyrir vali dómara og fékk gyllta styttu af Hugsuðinum úr Góða Hirðinum sem táknræn áskorun um að teymið haldi áfram að vinna í lausninni. 



Birt á mbl.is 11012024

is_ISIcelandic