Opnað fyrir skráningar í Gulleggið í Vísindaferð Gulleggsins – 800 háskólanemar mættu í Grósku
KLAK – Icelandic Startups hélt Vísindaferð í Grósku í lok síðasta mánaðar þar sem um 800 háskólanemar fengu tækifæri til að kynna sér Gulleggið, stærstu frumkvöðlakeppni landsins.
Á viðburðinum opnaði Anna Schalk Sóleyjardóttir, verkefnastjóri Gulleggsins, formlega fyrir skráningar í Gulleggið 2026.
„Gulleggið er fullkominn vettvangur til að láta hugmyndir verða að veruleika, Gulleggsferðalagið er ótrúlega skemmtilegt og lærdómsríkt, og það er eiginlega bara hægt að græða á því að taka þátt. Hér lærir þú að þróa hugmynd yfir í viðskiptatækifæri undir leiðsögn sérfræðinga, eflir tengslanetið og lærir með því að gera. Ef þú hefur áhuga á nýsköpunarsenunni á Íslandi eða langar að kynnast frumkvöðlaumhverfinu betur, þá er Gulleggið fyrir þig“
Sagði Anna
Vísindaferðin markaði upphaf ferðalagsins að Gullegginu 2026. Gestir fengu innsýn í ferlið, leiðina frá hugmynd til viðskipta, og þau úrræði sem standa frumkvöðlum til boða í gegnum KLAK. Einnig fengu gestir að heyra reynslusögu frá Moses Osabutey meistaranema við Háskóla Íslands sem komst í úrslit Gulleggsins 2025 með hugmynd sína Huddlehop.
Stemningin var í hæstu hæðum, Floni steig á svið og hélt uppi fjöri, og fjölbreytt dagskrá bauð upp á spjall, tengslamyndun við bakhjarla Gulleggsins og innblástur.
„Þor og þrautseigja eru lykilatriði í nýsköpun, Við bjóðum öll sem vilja þróa hugmyndir sínar velkomin, óháð bakgrunni eða reynslu. Gulleggið frábær stökkpallur fyrir þau sem vilja breyta hugmyndum í raunveruleg áhrif.“
sagði Ásta Sóllilja, framkvæmdarstjóri KLAK.
Skráning í Gulleggið 2026 er hafin á gulleggid.is.
KLAK – Icelandic Startups
KLAK hjálpar frumkvöðlum að raungera hugmyndir sínar, fjölgar sprotafyrirtækjum sem byggja á hugviti og eykur þannig sjálfbæra verðmætasköpun Íslands. Við hjálpum sprotafyrirtækjum að vaxa innanlands og út fyrir landsteinana með því að hraða þróun þeirra og tengja þau við sérfræðinga, fjárfesta og aðra lykilaðila. Klak hefur fyrir löngu skipað sér sess sem lykilaðili í stuðningsumhverfi nýsköpunar á Íslandi og leggur sig fram við að vera leiðandi afl í grasrót frumkvöðlasamfélagsins.























































































