fbpx

Fyrstu verðlaun í Gullegginu hækka í 2.000.000 kr.

Gulleggið, stærsta frumkvöðlakeppni landsins, hefur verið haldin af KLAK-Icelandic Startups frá árinu 2008 og frá upphafi hefur Landsbankinn verið aðalbakhjarl keppninnar. Nú hefur Landsbankinn ákveðið að bæta enn frekar í og tvöfalda verðlaunafé.

Þrjú stigahæstu teymi Gulleggsins ár hvert hljóta peningaverðlaun frá Landsbankanum. Verðlaunaféð hefur reynst mikilvæg lyftistöng fyrir sigurteymin og stutt við framgang hugmynda þeirra. Mörg farsæl fyrirtæki í íslensku atvinnulífi hafa byrjað sem hugmynd í Gullegginu, s.s. Taktikal, Pay Analytics, Heima app og Controlant.

Nú hefur KLAK samið við Landsbankann um að auka enn stuðning sinn og tvöfalda verðlaunaféð sem þrár stigahæstu hugmyndir Gulleggsins hljóta árið 2025. Þannig mun sigurhugmyndin fá tvær milljónir króna í verðlaun, hugmyndin sem endar í öðru sæti fær eina milljón króna og sú sem hafnar í þriðja sæti fær 500.000 krónur að launum. Það er því óhætt að segja að til mikils sé að vinna í Gullegginu 2025!

 „Við hjá Landsbankanum erum stolt af því að hafa stutt við Gulleggið frá fyrstu tíð. Keppnin hefur verið mikilvægur vettvangur fyrir frumkvöðla til að þróa og efla hugmyndir sínar og við hlökkum til að sjá fleiri frábærar hugmyndir verða að veruleika,“ segir Sara Pálsdóttir framkvæmdastjóri Samskipta og menningar hjá Landsbankanum.

„Vegferð frumkvöðla frá hugmynd að öflugum rekstri er full af áskorunum. Stuðningur á fyrstu stigum þeirrar vegferðar getur skipt sköpum og margfaldað líkur á að hugmynd þroskist yfir í blómlegt fyrirtæki. Landsbankinn skilur þetta vel og hefur verið staðfastur bakhjarl Gulleggsins frá stofnun keppninnar fyrir 16 árum. Fyrir það erum við bankanum mjög þakklát,“ segir Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri KLAK -Icelandic Startups. 

Gulleggið er frumkvöðlakeppni sem haldin er í upphafi hvers árs og er sérstaklega hugsuð fyrir nýsköpun á hugmyndastigi. Keppnin er opin öllum, jafnt hugmyndasmiðum og áhugafólki um nýsköpun sem vill láta að sér kveða. Gulleggið hefst í janúar með Hugmyndahraðhlaupi fyrir háskólanema og Masterclass-námskeiði í kjölfarið þar sem markmiðið er að þróa hugmynd og búa til kynningu á henni. Tíu teymi eru svo valin inn í lokakeppni Gulleggsins sem fer fram í hátíðarsal Grósku þann 14. febrúar 2025. Opnað var fyrir umsóknir í dag.