Gulleggið, stærsta og elsta frumkvöðlakeppni Íslands á hugmyndastigi, snýr aftur í upphafi árs 2026. Keppnin hefur verið haldin árlega af KLAK – Icelandic Startups síðan 2008 og verður haldin í 19. sinn á næsta ári. Nú hefur verið opnað fyrir skráningar í keppnina.
Gulleggið er opið öllum, óháð því hvort þátttakendur séu með fullmótaða hugmynd eða ekki. Þátttaka er öllum að kostnaðarlausu og er keppnin sérstaklega ætluð þeim sem hafa áhuga á nýsköpun, frumkvöðlastarfi og stofnun fyrirtækja.
Keppt er um 2.000.000 króna verðlaunafé fyrir fyrsta sætið í boði Landsbankans sem hefur styrkt keppnina frá upphafi. Auk þess sem þátttakendur fá aðgang að víðtækri leiðsögn, fræðslu og tengslaneti reynslumikilla frumkvöðla, fjárfesta og sérfræðinga.
Fjölbreytt dagskrá í janúar og febrúar
- Dagskrá Gulleggsins 2026 hefst í janúar með Hugmyndahraðhlaupi Gulleggsins & Landsbankans, sem er ætlað háskólanemum. Þar vinna þátttakendur að lausnum á raunverulegum áskorunum sem kynntar eru af bakhjörlum keppninnar: ELKO, KPMG, JBT Marel, Háskólanum í Reykjavík og Reykjavíkurborg. Sigurvegarar hraðhlaupsins hljóta 150.000 króna verðlaun og tryggt sæti í Topp 10 hópi lokakeppninnar.
- Í framhaldinu fer fram Masterclass Gulleggsins, opið og ókeypis námskeið þar sem þátttakendur fá aðstoð við að móta hugmyndir sínar, greina viðskiptatækifæri og útbúa kynningu sem uppfyllir skilyrði lokakeppninnar.
- Lokakeppni Gulleggsins fer fram 26. febrúar 2026 í Grósku, þar sem tíu teymi kynna hugmyndir sínar fyrir dómnefnd og áhorfendum. Keppnin verður einnig sýnd í beinni útsendingu á visir.is.
Stökkpallur fyrir íslenska nýsköpun
Gulleggið hefur í gegnum árin reynst öflugur stökkpallur fyrir íslensk sprotafyrirtæki á borð við Controlant, Meniga, PayAnalytics og Taktikal. Keppnin er ætluð hugmyndum á frumstigi og er gert ráð fyrir að keppendur hafi hvorki tekið inn meira en 2 milljónir króna í fjármögnun né hafið tekjuöflun.
Að framkvæmd keppninnar koma árlega um 100 einstaklingar, þar á meðal sjálfboðaliðar, mentorar og sérfræðingar úr atvinnulífinu. Verkefnastjórn Gulleggsins er að stórum hluta skipuð nemendum frá Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík undir leiðsögn KLAK – Icelandic Startups.
Skráning opin
Skráning í Gulleggið 2026 er opin og rennur út á miðnætti 29. janúar 2026. Öll áhugasöm eru hvött til að skrá sig, hvort sem þau sitja á hugmynd eða vilja taka þátt án hennar.
Nánari upplýsingar og skráning má finna á vefsíðu Gulleggsins >>