Sprotafyrirtækin dala.care og uiData voru valin úr stórum hópi norrænna umsækjenda til þess að taka þátt í TINC viðskiptahraðlinum sem haldinn er af Innovation Norway Silicon Valley í samstarfi við Vinnova í Svíþjóð, Business Finland og KLAK-Icelandic Startups.
TINC er 6 vikna hybrid viðskiptahraðall sem fer fram að að hluta til á netinu en einnig í sérstakri dagskrá í Kísildal í Kaliforníu. Hraðallinn miðar að því að efla vörur og viðskiptamódel þátttakenda og auka samkeppnishæfni þeirra á alþjóðlegum mælikvarða í einu frjóasta sprotaumhverfi heims.
Íslenska heilsutæknifyrirtækið dala.care hefur það markmið að umbreyta því hvernig fólk upplifir heimaþjónustu. Sérhannað app hjálpar einstaklingum sem þurfa á heimaþjónustu að halda að lifa innihaldsríkara lífi með því að einfalda stjórnun tengda heimahjúkrun. Umönnunaraðilar, fjölskyldur og umönnunarþegar eru tengdir í gegnum sameiginlegan vettvang sem gerir öllum kleift að vera upplýst, samræma aðgerðir á skilvirkari hátt og veita ástvinum sem bestan stuðning.
uiData framleiðir hugbúnaðinn DataCentral sem gerir fyrirtækjum og stofnunum kleift að dreifa skýrslum og gagnasettum á öruggan hátt til þriðja aðila. Til viðbótar við einföldun á miðlun gagna þá er DataCentral með ýmsa viðbótar virkni á borð við gervigreind og hagkvæma leið til að útbúa „mínar síður“ fyrirtækja ásamt fleiri virkni
KLAK-Icelandic startups hefur um árabil haft milligöngu um þátttöku íslenskra fyrirtækja í TINC hraðlinum með því að tilnefna íslensk sprotafyrirtæki sem hafa skarað fram úr með lausnir sem eru líklegar til þess að ná langt alþjóðlega. Íslensk fyrirtæki sem hafa farið í gegnum hraðalinn eru meðal annars 50skills, Hopp, PLAIO og Sportabler.
Freyr Friðfinnsson verkefnastjóri og alþjóðafulltrúi KLAK Icelandic Startups segir það hvetjandi að sjá hvernig íslensk fyrirtæki sem fá þetta tækifæri hafa blómstrað:
„Mikilvægur hluti þess að byggja upp heimsklassa sprotaumhverfi á Íslandi er að frumkvöðlar hér á landi fái tækifæri til þess að fara út og læra af þeim bestu í Kísildalnum og koma svo til baka með sína reynslu til landsins. Þá geta þeir miðlað þekkingunni áfram og sprotaumhverfið vex með þeim. Við Íslendingar getum til dæmis lært mikið af Bandaríkjamönnum varðandi sölumál en í TINC eru mentorar sem hafa gríðarlega reynslu af sölu svo það er til mikils að vinna að taka þátt.”