Þann 17 desember héldu KLAK – Icelandic Startups sérstakan viðburð tileinkaðan Gullegginu, stærstu frumkvöðlakeppni landsins. Viðburðurinn var tvíþættur og endurspeglaði sögu keppninnar sem nær aftur til ársins 2008, auk þess sem nýr verðlaunagripur var kynntur.
Nýr verðlaunagripur, sem Héðinn hf, bakhjarl keppninnar, útbjó úr myndmerki Gulleggsins var formlega kynntur og afhentur öllum þeim fyrirtækjum sem hafa unnið keppnina síðustu 17 ár og eru enn starfandi. Með þessum grip er framlag þeirra og árangur í gegnum tíðina heiðraður, og var viðstöddum veitt tækifæri til að fylgjast með því þegar verðlaunin voru afhent fyrri vinningshöfum.
Einnig voru veitt sérstök heiðursviðurkenning, en markmið hennar er að undirstrika að frumkvöðlastarf snýst ekki einungis um að sigra keppni heldur einnig að leggja grunn að framtíðarverkefnum og sigrast á áskorunum. Það var fyrirtækið Taktikal sem hlaut heiðursviðurkenningu að þessu sinni, og tók Valur Þór Gunnarsson, annar stofnandi Taktikal, við verðlaununum fyrir hönd félagsins.
KLAK-Icelandic Startups leggur áherslu á að hlúa að íslenskum frumkvöðlum og hvetja öll sem hafa hug á að taka þátt í Gullegginu að grípa tækifærið og láta drauma sína rætast.
Mikil þróun hefur átt sér stað í Gullegginu í gegnum árin, en meðal annars má nefna Hugmyndahraðhlaup Gulleggsins og Masterclass Gulleggsins, sem eru bæði til þess fallin að auðvelda einstaklingum að sjá að öll geti orðið frumkvöðlar og að þeirra þekking sé verðmæt og gæti breytt heiminum einn daginn.
Vinninshafar Gulleggsins
Eftirfarandi teymi voru viðstödd viðburðinn til þess að taka við nýja gripnum:
2008 Videntifier
Hugbúnaðarfyrirtækið Videntifier sérhæfir sig í háþróaðri mynda- og myndbandsgreiningartækni sem þjónar löggæslu og öryggisstofnunum um allan heim. Tæknin er víða notuð í dag til að bera kennsl á ólöglegt eða skaðlegt efni á netinu, meðal annars af Interpol.
2009 Controlant
Controlant sigraði Gulleggið árið 2009 en í dag er fyrirtækið leiðandi á heimsvísu í stafrænni umbreytingu lyfjabirgðakeðja. Controlant þjónustar lyfjageirann með sjálfvirkum rauntímalausnum sem tryggja gæði lyfja með skráningu og eftirliti á hitastigi ásamt viðbragðsþjónustu með tækni eins og Internet hlutanna.
2011 Róró
Lúlla Dúkkan frá Róró hjálpar börnum að sofa betur með dúkkum sem líkja eftir nærveru manneskju þar sem að í dúkkunni er tæki sem spilar upptöku af hjartslætti og andardrætti móður í slökun. Dúkkan hefur náð mikilli athygli og vinsældum á heimsvísu og hefur verkefnið hlotið verðlaun fyrir áhrif þess á vellíðan barna.
2016 Pay analytics
Pay analytics þróaði hugbúnaðarlausn til að framkvæma launagreiningar með það markmið að draga úr launabili kynjanna. Kerfið var ekki aðeins þróað til að mæla launabil milli kynja heldur leggur það einnig til aðgerðir til að draga úr því með aðgerðaáætlun og kostnaðargreiningu. Gaman að segja frá því að Pay Analytics var selt til svissneska félagsins Beqom í lok síðasta árs, og var það fyrsta Gulleggs-fyrirtækið sem var selt.
2017 Atmonia
Atmonia þróar sjálfbært ferli fyrir ammoníakframleiðslu sem notar loft, vatn og rafmagn til að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda. Með nýrri tækni framleiðir Atmonia ammoníak og nítrat áburð nálægt notendum, sem sparar bæði kostnað og minnkar kolefnisfótspor jarðar.
2018 Flow
Flow er lausn sem gerir fólki kleift að stunda áhrifaríka hugleiðslu í alltumlykjandi sýndarveruleika. Með innblæstri frá náttúrunni sem Ísland hefur uppá að bjóða hjálpar Flow notendum að losa streitu, auka fókus og efla jákvæðni í heiminum.
2019 Dufl
Dufl bætir upplifunina við veiðar með því að þróa nýjar og áreiðanlegar vörur fyrir línu- og netaveiðiskip.
Við mótum framtíð veiða með tækni sem gerir sjómönnum kleift að ná meiri hagkvæmni og árangri í störfum sínum
2020 Heima
Heima er smáforrit sem skiptir húsverkum og hugrænu byrðinni af heimilishaldi jafnt á milli sambýlinga. Auk þess verða húsverkin að þá að leik innan heimila og eykur þannig hamingju og heimilisstjórnun til muna.
2022 Tvík
Tæknivæddi íslenskukennarinn Tvík er gagnvirkur kennsluvettvangur sem styður við nýjustu máltækniaðferðir til að hjálpa þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref í að læra íslensku.
2023 Better sex
Better sex er streymisveita fyrir fullorðna með skemmtilegum og jafnframt faglegum fróðleik um kynlíf. Með Better sex er verið að auka aðgengi að góðri fræðslu í tengslum við kynlíf og sambönd allt á einum stað.
2024 Sea Growth
Líftæknifyrirtækið Sea Growth hyggst rækta fiskmeti með hjálp vísindanna með því að framleiða fiskhrávörur úr fiskfrumum, svokallaðan vistfisk. Þeir nýta endurnýjanlega orku Íslands til að rækta hágæða fiskafurðir án þess að ganga á auðlindir hafsins.
Við hvetjum öll eindregið til þess að skrá sig í Gulleggið og taka stökkið á nýju ári á https://gulleggid.is