Fjölmargar vandaðar umsóknir hafa borist í Startup SuperNova í ár og er loksins komið að því að kynna þátttakendur. Næstkomandi föstudag 22. júlí munu KLAK – Icelandic Startups og Nova nafngreina sprotafyrirtækin í Startup SuperNova við mikla viðhöfn í Gym og Tonic salnum á Kex Hostel. KLAK og Nova hvetja öll til að mæta til að fagna með þátttakendum en athöfnin hefst kl. 17:00 – 19:00.
Startup SuperNova í ár fór af stað með breyttu sniði við mikinn fögnuð í júní síðastliðinn í hátíðarsal Grósku í þriggja daga Masterclass sem var ætlaður öllum sprotafyrirtækjum sem höfðu áhuga á því að taka þátt í Startup SuperNova. Eftir Masterclassinn þurftu teymin að skila inn 18 mánaða aðgerðarplani ásamt hefðbundinni umsókn í sjálfan hraðalinn sem hefst þann 3. ágúst. Þá tekur við fimm vikna prógram þar sem unnið verður að gerð viðskiptaáætlana, markaðssetningu, vöruþróun svo eitthvað sé nefnt og fundir með mentorum sem fylgja sprotafyrirtækjunum út í gegnum hraðalinn. Að auki býðst aðgangur að fullbúinni vinnuaðstöðu meðan á hraðlinum stendur í höfuðstöðvum KLAK í Grósku.
Startup SuperNova hefur verið gríðarlega góður stökkpallur fyrir sprotafyrirtæki og einstakur vettvangur fyrir þróun nýsköpunarverkefna rótgrónari sprotafyrirtækja. Hraðallinn er samstarfsverkefni KLAK – Icelandic Startups og Nova þar sem leitast er við að byggja upp viðskiptalausnir ætlaðar alþjóðamarkaði með sannreyndri aðferðafræði og áralangri reynslu KLAK – Icelandic Startups af stuðningi við frumkvöðla og sprotafyrirtæki.
Startup SuperNova lýkur með glæsilegum fjárfestadegi 9. september.