Alvotech og Fruman líftæknisetur nýir bakhjarlar Gulleggsins

Tveir nýir styrktaraðilar úr líftækniheiminum, Alvotech og Fruman líftæknisetur, hafa nú gerst bakhjarlar Gulleggsins, sem er stærsta frumkvöðlakeppni Íslands.  Jóhann G. Jóhannsson, meðstofnandi Alvotech og Frumunnar, og Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri KLAK – Icelandic Startups innsigluðu samstarfið í Grósku á dögunum.  

Gulleggið hefur fest sig í sessi sem ein vinsælasta frumkvöðlakeppni á Íslandi og veitt mörgum frumkvöðlum forskot og gott veganesti inn í nýsköpunarumhverfið hérlendis.  Hluti af stuðningi Alvotech og Frumunnar mun vera í formi sérstakra verðlauna fyrir það sprotafyrirtæki sem kemur með bestu hugmyndina tengda líftækni. Eru verðlaunin hugsuð sem aukin hvatning fyrir þátttöku allra þeirra sem eru með hugmyndir í líftækniiðnaðinum.

Næsta kynslóð líftæknifyrirtækja

Forsvarsmenn  Alvotech og Frumunnar sjá í þessu  samstarfi mikil tækifæri fyrir næstu kynslóð líftæknifyrirtækja á Íslandi, en Jóhann G. Jóhannsson telur mikilvægt að hlúa að næstu kynslóð vísindamanna á Íslandi.

“Við hjá Alvotech erum gríðarlega stolt af því að fá að styðja við bakið á Gullegginu sem er einstakur vettvangur hér á landi til að ýta undir bæði líftækninýsköpun og hvetja fólk með viðskiptahugmyndir í líftækni til dáða.  Við viljum líka nýta þetta tækifæri til að kynna Frumuna líftæknisetur betur fyrir ungu fólki og nýsköpunarheiminum á Íslandi.  Þannig viljum við styðja vísindafólk framtíðarinnar sem eiga möguleika að vinna með líftæknifyrirtækjum eins og Alvotech í uppbyggingu sinni,” segir Jóhann. 

Jens Bjarnason, framkvæmdastjóri Frumunnar, tekur í sama streng.

“Gulleggið er mikilvægur vettvangur fyrir frumkvöðla á Íslandi og með þátttöku Frumunnar viljum við tryggja að líftæknitengdar hugmyndir fái raunverulegt framhald. Hlutverk Frumunnar er að skapa aðstæður þar sem frumkvöðlar komast úr hugmyndastigi yfir í þróun, með aðgang að sérhæfðri aðstöðu, þekkingu og tengslum við atvinnulíf og vísindi. Með þessu samstarfi styrkjum við líftæknivistkerfið í heild sinni.”

Hjá Frumunni koma saman frumkvöðlar, sprotafyrirtæki, vísindamenn og nemar í sameiginlegu vistkerfi sem leggur áherslu á samvinnu, þekkingarmiðlun og aðgang að sérhæfðri aðstöðu. Markmið Frumunnar er að styrkja innviði líftækni á Íslandi og skapa skilyrði fyrir vöxt og verðmætasköpun í greininni.

Sérstök verðlaun fyrir bestu líftæknihugmyndina

Alvotech og Fruman mun veita þeim fyrirtækjum sem koma með hugmyndir tengdar líftækni inn í keppnina aukið aðgengi að fagþekkingu, mentorum,  tengslanet við vísindamenn fyrirtækisins og rannsóknaraðstöðu hjá sér og hjá Frumunni. Í þessu fellst einnig fjárhagslegur stuðningur, því í Gullegginu verða einnig ný, sérstök verðlaun veitt því sprotafyrirtæki sem kemur inn í keppnina með bestu líftæknihugmyndina. 

“Það er mikill styrkur fyrir Gulleggið að hafa fengið jafn öfluga styrktaraðila og Alvotech og Frumuna líftæknisetur til liðs við okkur, en þetta er stærsta frumkvöðlakeppni Íslands. KLAK – Icelandic Startups hefur getað státað sig af því að fá góða og sterka aðila í samstarf við Gulleggið og það er engin breyting á því í ár,” segir Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri KLAK – Icelandic Startups. 

Gulleggið

Gulleggið, sem er stærsta og elsta frumkvöðlakeppni Íslands á hugmyndastigi er haldin árlega af KLAK – Icelandic Startups. Keppnin er öllum opin og sérstaklega ætluð þeim sem hafa áhuga á nýsköpun og stofnun fyrirtækja, óháð því hvort hugmyndin sé fullmótuð eða ekki. Sigurvegarinn hlýtur 2 milljónir króna frá Landsbankanum.

Masterclass Gulleggsins, opið og ókeypis námskeið þar sem þátttakendur fá aðstoð við að móta hugmyndir sínar, greina viðskiptatækifæri og útbúa kynningu sem uppfyllir skilyrði lokakeppninnar.

Skráning er pin til miðnættis 29. janúar 2026, og fer fram á www.Gulleggid.is

is_ISÍslenska

Við notum vefkökur 🍪

Við notum vefkökur til að bæta upplifun þína, greina notkun á síðunni og styðja við áframhaldandi þróun á þjónustu okkar. Með því að smella á „Samþykkja allar“ samþykkir þú notkun þeirra.