fbpx

Áslaug Arna undirritar samning um stuðning við KLAK – Icelandic Startups

Háskóla, iðnaðar og nýsköpunarráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri KLAK – Icelandic Startups undirrituðu á dögunum samning til þriggja ára um áframhaldandi stuðning HVIN við KLAK í þágu frumkvöðla og sprotafyrirtækja á Íslandi. 

Samkvæmt samningnum styður ráðuneytið sérstaklega við nokkra lykilþætti í starfsemi KLAK. Þannig mun HVIN styrkja frumkvöðlakeppnina Gulleggið sem KLAK hefur haldið árlega frá árinu 2008 og er fyrir nýsköpunarhugmyndir á frumstigum. Einnig felst í samningnum stuðningur við alþjóðastarf KLAK m.a. vegna vegna þátttöku íslenskra sprotafyrirtækja í viðskiptahraðlinum TINC sem rekinn er í Nordic Innovation House í Palo Alto. Að auki styður ráðuneytið við nýstofnaða mentoraþjónustu KLAK, KLAK-VMS sem rekin er að fyrirmynd frá MIT háskólanum í Bandaríkjunum en í dag leggja tæplega 130 mentorar KLAK-VMS lið og veita sprotafyrirtækjum ómetanleg ráð og handleiðslu.

Haft er eftir háskóla, iðnaðar og nýsköpunarráðherra, Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur: “Fjárfesting í mannauði, nýsköpun og þekkingu skilar sér í auknum hagvexti til framtíðar. Umhverfi og þeir innviðir sem við byggjum upp skipta miklu máli, ekki síst fyrir frumkvöðla með stórar hugmyndir. Og það skiptir öllu máli að hér á landi búi einstaklingar sem eru til í að taka áhættu. Hugmyndir einstaklinga eru forsendur framfara”

“Í hartnær þrjá áratugi hefur KLAK-Icelandic Startups stutt við sprotafyrirtæki á Íslandi og hjálpað þeim að vaxa innanlands og út fyrir landsteinana með gleði að leiðarljósi. Öll aðstoð KLAK er frumkvöðlum að kostnaðarlausu og reiðum við okkur á bakhjarla til að fjármagna starfið. HVIN hefur um árabil verið einn af okkar allra mikilvægustu bakhjörlum og því er sérstaklega ánægjulegt að ganga frá samkomulagi um áframhaldandi stuðning við kjarnaþætti í starfsemi félagsins” segir Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri KLAK-Icelandic Startups.

is_ISIcelandic