fbpx

Ásta Sóllilja nýr framkvæmdastjóri KLAK

Ásta Sóllilja framkvæmdastjóri Klak – Icelandic Startups

Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Klak – Icelandic Startups og tekur hún við af Kristínu Soffíu Jónsdóttur, sem nú starfar hjá Leitar Capital Partners.

Ásta er með MBA frá Háskólanum í Reykjavík, diplóma í stjórnun frá Harvard háskóla auk meistaragráðu i heilbrigðisvísindum og BS gráðu í líffræði frá Háskóla Íslands. Hún starfaði áður sem viðskiptaþróunarstjóri hjá Auðnu tæknitorgi og hefur víðtæka reynslu af viðskiptaþróun og nýsköpun m.a. í gegnum stjórnarsetu í ýmsum sprotafyrirtækjum. Ásta var áður fjármálastjóri Volta ehf og starfaði einnig í lyfja- og líftæknigeiranum m.a. fyrir Actavis og Íslenska erfðagreiningu og vann að viðskiptaþróun í ferðaþjónustu.

Það er mikill fengur að fá Ástu Sóllilju til liðs við Klak – Icelandic Startups. Ásta hefur víðfema reynslu af nýsköpun og fjárfestingum í gegnum fyrri störf og með setu í stjórnum sprotafyrirtækja. Við hlökkum til að vinna með Ástu og frábæru teymi Klak að því að efla nýsköpunar- og frumkvöðlastarfsemi á Íslandi enn frekar”, segir Soffia Kristin Þórðardóttir, stjórnarformaður Klak – Icelandic startup.

Nýsköpun er lykill að öflugu atvinnulífi, spennandi atvinnutækifærum og verðmætasköpun framtíðarinnar. Starfsemi Klaks hefur skipt sköpum á vegferð fjölmargra sprota sem hafa þroskast yfir í stöndug fyrirtæki. Ég er mjög spennt fyrir því að ganga til liðs við Klak og leiða áframhaldandi uppbyggingu starfseminnar í samstarfi við frábært teymi, sterka stjórn og öfluga bakhjarla”, segir Ásta .

Klak er helsti stuðningsaðili nýsköpunar á Íslandi og rekur árlega viðskiptahraðlana Hringiðu og Startup SuperNova, frumkvöðlakeppnina Gulleggsins auk þess sem þau bjóða upp á vinnustofur og mentoraþjónustu fyrir styrkþega Tækniþróunarsjóðs.

is_ISIcelandic