fbpx

Einkaleyfisumsóknir fyrirtækja á sviði lífvísinda

Hugverkastofa sendi frá sér skýrslu um einkaleyfisumsóknir íslenskra lífvísindafyrirtækja en hún var kynnt á málefnafundi Heilsutækniklasans í byrjun febrúar. 

Í skýrslunni kemur fram að 63% allra einkaleyfisumsókna íslenskra lífvísindafyrirtækja í Evrópu og Bandaríkjunum undanfarin 11 ár eru frá Össuri. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Hugverkastofunnar um einkaleyfisumsóknir íslenskra lífvísindafyrirtækja sem kynnt var á málefnafundi Heilsutækniklasans í morgun. 

Niðurstöður skýrslunnar sýna að ef litið er vítt yfir sviðið standa íslensk lífvísindafyrirtæki sig vel við vernd uppfinninga með einkaleyfisumsóknum á alþjóðavettvangi. Fjöldi erlendra umsókna íslenskra fyrirtækja hefur haldist nokkuð stöðugur undanfarin ár en þó eru vísbendingar um að þeim fari frekar fækkandi en hitt. Ef rýnt er betur í gögnin kemur þó í ljós að góð staða Íslands er fyrst og fremst til komin vegna fjölda umsókna frá einu fyrirtæki, Össuri. Ef horft er til fjölda einkaleyfisumsókna innan annarra geira en heilbrigðistækni, þ.e. lyfjageirans, líftækni og matvælafræði, eru frekar fáar umsóknir frá Íslandi miðað við samanburðarlöndin. Niðurstöðurnar gefa því vísbendingar um að íslensk lífvísindafyrirtæki þurfi að huga betur að einkaleyfavernd og að tækifæri sé til sóknar á sviði lífvísinda almennt hér á landi. Þó ber að setja þann fyrirvara að hér á landi starfa öflug lífvísindafyrirtæki sem eðlis starfsemi sinnar vegna sækja ekki mikið um einkaleyfi.

Borghildur Erlingsdóttir, forstjóri Hugverkastofunnar segir að það sé eftirsóknarvert fyrir Ísland að efla lífvísindageirann enda sé um hátækniiðnað að ræða sem skapi mikil verðmæti og greiði góð laun. „Í Danmörku hefur lengi verið unnið markvisst að uppbyggingu á þessu sviði, meðal annars með opinberri stefnumörkun sem hefur borið góðan ávöxt. Útflutningur danskra fyrirtækja á þessu sviði þrefaldaðist t.d. á tíu árum, frá 2010-2019. Þar er nú unnið eftir nýrri lífvísindastefnu og skýrri hugverkastefnu. Hér á landi eru góðar aðstæður til að feta í fótspor Dana og gera lífvísindi að meginstoð í íslensku efnahagslífi. Til þess þarf meðal annars að huga vel að vernd hugverkaréttinda og mögulega þarf til þess aukinn opinberan stuðning við einkaleyfisumsóknir lítilla og meðalstórra fyrirtækja.“

Í skýrslunni eru teknar saman upplýsingar um fjölda íslenskra einkaleyfisumsókna á sviði lífvísinda til Evrópsku einkaleyfastofunnar EPO og Bandarísku einkaleyfa- og vörumerkjastofunnar USPTO 2010-2021. Skoðaðar eru umsóknir frá fyrirtækjum í lyfjageiranum, líftækni, heilbrigðistækni og matvælafræði og fjöldi umsókna borinn saman við fjölda umsókna frá dönskum, norskum, sænskum, þýskum, svissneskum, bandarískum og kínverskum fyrirtækjum í sömu geirum. Skýrslan er gerð að fyrirmynd danskrar skýrslu sem gefin var út af dönsku hugverkastofunni 2020.

Hlutverk Hugverkastofunnar er að fara með málefni varðandi einkaleyfi, vörumerki, hönnunarvernd, byggðarmerki og önnur hliðstæð réttindi sem kveðið er á um í lögum, reglugerðum og alþjóðasamningum um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar. Stofnunin veitir einstaklingum, stofnunum og fyrirtækjum upplýsingar og ráðgjöf varðandi hugverkaréttindi í iðnaði og vinnur að því að ný tækni og þekking sem felst í skráðum hugverkaréttindum verði aðgengileg almenningi. Hugverkastofan heyrir undir nýtt ráðuneyti háskóla, nýsköpunar og iðnaðar.

is_ISIcelandic