fbpx

Fjölbreyttir frumkvöðlar sóttu Superclass Startup SuperNova

Yfir 40 sprotateymi skráðu sig til leiks í Superclass Startup Supernova sem fór fram í Sykursalnum í Grósku fyrir helgi. Markmiðið með Superclass vinnustofunum var að undirbúa teymin til þess að sækja um í Startup Supernova hraðalinn sem verður keyrður í fimmta sinn eftir Verslunarmannahelgi. 

Reynsluboltar úr frumkvöðlasenunni og ýmsir sérfræðingar úr atvinnulífinu komu til að miðla af þekkingu sinni og hjálpa sprotateymunum að gera 18 mánaða aðgerðaráætlun fyrir verkefnin sín. Meðal fyrirlesara voru Margrét Tryggvadóttir skemmtanastjóri og forstjóri Nova sem lagði í sínu erindi áherslu á mikilvægi þess að byggja upp sterkt samheldið teymi, Tryggvi Þorgeirsson framkvæmdastjóri og meðstofnandi Sidekick Health sem fór yfir hvernig best er að ná í viðskiptavini og skala fyrirtækið og Jason Zhangxiaoyu, landstjóri Huawei Iceland sem fræddi viðstadda um tækifærin sem 5G tæknin býður upp á en teymi sem eru að þróa lausnir tengdar 5G- og fjarskiptatækni eru sérstaklega hvött til að sækja um í Supernova hraðalinn í ár.

“Við sjáum vel þegar við keyrum vinnustofur eins og Superclass hvað það er mikil gróska í nýsköpunarsenunni á Íslandi. Það var sérstaklega ánægjulegt að sjá hve fjölbreyttur hópur sótti Superclass í ár en um 30% þátttakenda voru af erlendum uppruna. Við hlökkum til að lesa yfir umsóknir í hraðalinn en umsóknarfrestur er til 23. júní og teymin tíu sem fá sæti í hraðlinum verða síðan tilkynnt þann 11. júlí næstkomandi” er haft eftir Magnúsi Daða Eyjólfssyni verkefnastjóra Startup Supernova hraðalsins hjá KLAK-Icelandic Startups. 

Startup SuperNova er í umsjón KLAK – Icelandic Startups í samstarfi við Nova og Huawei með stuðningi frá Grósku hugmyndahúsi en um er að ræða sex vikna viðskiptahraðal með áherslu á viðskiptalausnir sem geta skalað alþjóðlega.

is_ISÍslenska