fbpx

Forstjóri Terra undirritaði samning um Hringiðu 

Terra og KLAK – Icelandic Startups undirrituðu samning um áframhaldandi samstarf vegna viðskiptahraðalsins Hringiðu sem leggur áherslu á lausnir sem stuðla að sjálfbærri þróun og styðja við hringrásarhagkerfið. Terra hefur verið bakhjarl síðan 2022 og mun eiga einn fulltrúa í stýrihópi verkefnisins ásamt því að leggja fram fjármagn í rekstur þess. Við undirritun samningsins voru Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri KLAK – Icelandic Startups og forstjóri Terra, Valgeir M. Baldursson.

“Hlutverk Terra er að sækja og koma úrgangi í viðeigandi farveg og sem mestu aftur í hringrásarhagkerfið. Við þurfum sífellt að vera opin fyrir nýjum og betri leiðum til að nýta þær auðlindir sem nú verða að úrgangi. Eitt af megináherslum Terra þegar kemur að sjálfbærni er betri umgengni um jörðina, styðja við hringrásarhugsun og hafa jákvæð áhrif á samfélagið m.a. með því að fjárfesta í nýsköpun í átt að hringrásarhagkerfinu. Því stendur samstarfsverkefnið við Hringiðu okkur afar nærri,” segir Valgeir M. Baldursson, forstjóri Terra.

Markmið Hringiðu er að stuðla að því að á Íslandi rísi öflug sprotafyrirtæki sem byggja á hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins, skapa verðmæt og áhugaverð störf og skili árangri í umhverfis- og loftslagsmálum á Íslandi. Þungamiðja Hringiðu felst í skipulögðum vinnustofum og fundum með sérfræðingum úr hópi mentora frá KLAK VMS. Framfarir þátttakenda undir handleiðslu mentoranna skila sér í stórauknum líkum á að sprotarnir á fyrstu stigum nái árangri, íslensku samfélagi til hagsbóta.

“Það er mjög ánægjulegt að fá Terra í áframhaldandi samstarf við KLAK – Icelandic Startups um viðskiptahraðalinn Hringiðu. Terra leggur mikla áherslu á hringrásarhugsun og gangsæi í sínum störfum og vinnur samkvæmt “zero-waste” hugmyndafræðinni. Það er mjög mikilvægt að vera með svo öflugan aðila inn í bakhjarlahóp Hringiðu, bæði hvað varðar sérfræðiþekkingu á vandamálinu og stuðning við sprotana,” er haft eftir Ástu Sóllilju Guðmundsdóttur, framkvæmdastjóra KLAK – Icelandic Startups.   

is_ISÍslenska