fbpx

Héðinn hf. er framúrskarandi fyrirtæki í nýsköpun 2023

Héðinn hf. hlaut hvatningarverðlaun Creditinfo og Klak – Icelandic Startups fyrir framúrskarandi nýsköpun árið 2023. Nýverið ákvað Héðinn að styðja við íslenska frumkvöðla sem eru að stíga sín fyrstu skref í gegnum frumkvöðlakeppnina Gulleggið. Einnig hefur fyrirtækið boðið íslenskum frumkvöðlum aðstoð og aðstöðu fyrir gerð frumgerða.

Héðinn hf. er leiðandi fyrirtæki í málmiðnaði og véltækni og sinnir fjölbreyttri þjónustu við sjávarútveg, stóriðjufyrirtæki og orkuframleiðendur innanlands og utan. Félagið var stofnað árið 1922 og fagnaði því 100 ára afmæli í fyrra.

Í umsögn dómnefndar kemur fram að Héðinn hf. hafi frá upphafi stundað nýsköpun af krafti. „Sem dæmi má nefna að Héðinn reisti fyrstu íslensku síldarverksmiðjuna á Seyðisfirði árið 1936 og árið 1951 þróaði fyrirtækið og framleiddi fyrstu íslensku heimilisþvottavélina, Mjöll, í samvinnu við Rafha. Héðinn tók þátt í að þróa og smíða nýja og nútímalega sorpeyðingarstöð á Suðurnesjum sem var opnuð árið 2004.“ 

Dómnefndin minnist einnig á að Héðinn hefur þróað og smíðað próteinverksmiðju fyrir togara sem tryggir 100% nýtingu á fiskinum, og á tímabilinu 2017-2021 seldi Héðinn ýmsar útgáfur af próteinverksmiðjunni til sjö landa utan Íslands. Námu útflutningsverðmætin um sex milljörðum króna. 

Í umsögn dómnefndar kemur fram að Héðinn hf. er um þessar mundir í öflugri hugbúnaðarþróun fyrir sjávarútveginn með það að markmiði að útgerðir geti verið með allar upplýsingar um búnaðinn í verksmiðjunum og skipunum á einum stað og lágmarkað þörfina á óskipulögðum viðhaldsstoppum. 

Héðinn hefur aðstoðað mörg íslensk sprotafyrirtæki, t.d með því að taka þátt í hönnun, smíði og uppsetningu vélbúnaðar verksmiðju Vaxa Technologies og þátttöku í smíði lofthreinsistöðvar Carbfix við Hellisheiðarvirkjun. 

Um hvatningarverðlaunin

Hvatningarverðlaunin eru veitt samhliða birtingu lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki 2023. Dómnefnd vann úr lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki og sýndu fram á skýra stefnu í nýsköpun í sinni starfsemi. Verðlaunin eru unnin í samstarfi við Klak – Icelandic Startups. Í dómnefnd sátu Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Klak, Guðmundur Hafsteinsson, fjárfestir og stjórnarformaður Icelandair Group og Ásthildur Otharsdóttir, meðeigandi og fjárfestingastjóri hjá Frumtak Ventures.

is_ISÍslenska