Heilsutæknisprotum fagnað í Hörpu

Í síðustu viku lauk KLAK health viðskiptahraðlinum með glæsilegum fjárfestaviðburði í Hörpu. Þar kynntu tíu öflug sprotateymi heilsutækniverkefni sín fyrir fjölbreyttum hópi fjárfesta, fulltrúum úr heilbrigðisgeiranum og öðrum gestum. Alma Möller heilbrigðisráðherra opnaði viðburðinn og sagði við það tækifæri:

Heilbrigðisráðuneytið er stoltur bakhjarl þessa metnaðarfulla verkefnis því að nýsköpun á sviði heilsutækni er ekki aukaatriði í heilbrigðisþjónustu, hún er ein af stoðunum sem framtíð kerfisins okkar hvílir á“  og bætti við

„Með stuðningi ráðuneytisins er markmiðið skýrt: að skapa frjósamt umhverfi fyrir þróun og innleiðingar lausna sem nýtast beint í daglegu starfi heilbrigðisþjónustunar og umhverfi þar sem frumkvöðlar, fagfólk, fjárfestar og opinberar stofnanir tala saman ekki bara á fundum heldur í lifandi samstarfi”

Þetta er í fyrsta sinn sem KLAK býður upp á viðskiptahraðal með sérstakri áherslu á heilsutækni. Markmið hraðalsins er að efla íslenskt heilsutæknivistkerfi, styðja við frumkvöðla og hvetja til nýsköpunar í heilbrigðisgeiranum.


Verkefnið er fjármagnað af öflugum hópi bakhjarla, meðal annars leiðandi fyrirtækjum á Íslandi í heilsutækni og stofnunum í heilbrigðisgeiranum sem jafnframt styðja hraðalinn faglega með því að tilnefna sérfræðinga í mentorahóp hraðalsins.

Teymin sem kynntu verkefni sín voru (í stafrófsröð):

  • Careflux
  • Gleipnir BioForge
  • Guide2Care
  • LifeTrack
  • Medvit Health
  • Mín Vegferð
  • Mitoflux
  • Rekovy
  • Rewire AI
  • Vera Ráðgjöf
Hópmynd með Ástu Sóllilju og Haraldi Bergvinssyni.jpg

Teymin vinna að fjölbreyttum lausnum sem spanna fjölbreytt svið, allt frá stafrænni heilbrigðisþjónustu og lyfjaþróun yfir í lýðheilsulausnir og lækningatæki. Sum fyrirtækjanna  eru þegar komin með vöru á markað á meðan önnur eru að stíga sín fyrstu skref.

Í hraðlinum fengu teym­in sérhæfða fræðslu, leiðsögn frá reyndum mentorum, þjálfun í framkomu og sölukynningum og tengsl við lykilaðila innan heilbrigðisgeirans. Þessi stuðningur hefur gert þeim kleift að móta skýra viðskiptaáætlun og kynna verkefni sín fyrir fjárfestum og samstarfsaðilum.

Bakhjarlar hraðalsins eru Heilbrigðisráðuneytið, Landspítalinn, Kerecis, Íslandsbanki, Helix Health, Össur, Nox Medical, Veritas og Lifa Ventures.

 

is_ISÍslenska

Við notum vefkökur 🍪

Við notum vefkökur til að bæta upplifun þína, greina notkun á síðunni og styðja við áframhaldandi þróun á þjónustu okkar. Með því að smella á „Samþykkja allar“ samþykkir þú notkun þeirra.