fbpx

Hringiða 2023 opnar fyrir umsóknir 20. janúar

Hringiða opnar fyrir umsóknir í dag, 20. janúar, þar sem sprotafyrirtæki og nýsköpunarverkefni fyrirtækja og stofnanna sem byggja á hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins eru hvött til að sækja um en umsóknarfrestur er til og með 19. febrúar. 


Hringiða leggur áherslu á hringrásarhagkerfi þar sem dregið er fram, eflt og stutt nýja tækni og aðferðir sem raunverulega leysa aðsteðjandi úrlausnarefni í umhverfismálum. Viðskiptahraðallinn byggir á alþjóðlegri fyrirmynd með skýri nálgun á umsóknarferli Evrópustyrkja.

Sidewind er eitt af sprotafyrirtækjunum sem tóku þátt í Hringiðu 2022 en frumkvöðlarnir og stofnendurnir, María Kristín Þrastardóttir og Óskar Svavarsson, fengu evrópustyrk fyrir orkuskiptaverkefni sem leitt er af Verkís. Verkefninu er ætlað að draga verulega úr losun gróðurhúsaloftegunda hjá flutningaskipaflota heimsins.

Við mælum eindregið með að taka þátt í Hringiðu. Þiggðu alla þá aðstoð sem þér er boðið.” er haft eftir tvíeykinu.

Að taka þátt í Hringiðu var ótrúlega lærdómsríkt og gefandi. Þarna hittum við aðra frumkvöðla í sömu sporum og við. Við fengum loksins þá aðstoð sem okkur vantaði og góða innsýn inn í hvað það er sem þarf til þess að nýsköpunarfyrirtæki nái árangri.

Utanumhaldið var til fyrirmyndar og starfsfólkið frábært. Það munar öllu að hafa aðgang að Grósku þar sem allt er á einum stað fyrir frumkvöðla á fyrstu stigum. Einnig var ómetanlegt að hitta alla þá „mentora“ á hinum ýmsu sviðum sem leiðbeindu okkur með þau atriði sem okkur vantaði hjálp með.” 

Í lok hraðals verða þátttakendur í stakk búin að sækja um í Evrópustyrki meðal annars í LIFE-áætluninni sem byggir á hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins. LIFE er ein af samstarfsáætlunum ESB sem hefur fjármagnað verkefni á sviði loftslags- og umhverfismála frá árinu 1992. LIFE-áætlunin gegnir mikilvægu hlutverki við að ná fram á næstu árum nauðsynlegri umbreytingu yfir í hreinna, orkunýtið og kolefnishlutlaust samfélag í anda hringrásarhagkerfisins. 

Viðskiptahraðallinn byggir á alþjóðlegri fyrirmynd og býður upp á metnaðarfullan vettvang og góðan undirbúning fyrir umsóknir í Evrópustyrki. Þungamiðjan í hraðlinum felst í skipulögðum fundum þátttakenda með reyndum frumkvöðlum, fjárfestum og öðrum sérfræðingum. Um er að ræða sannreynt ferli þar sem sprotaverkefnum er veittur aðgangur að breiðu tengslaneti leiðbeinenda úr atvinnulífinu og markvissri þjálfun.

Umsjón með hraðlinum er í höndum KLAK sem hefur til fjölda ára veitt aðstoð við þróun viðskiptahugmynda og leitt saman hóp hagaðila með verðmætasköpun að leiðarljósi. Bakhjarlar eru Reykjavíkurborg, Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Orkuveita Reykjavíkur, Faxaflóahafnir, Terra, Ölgerðin og Samtök iðnaðarins. Samstarfsaðilar Hringiðu eru Rannís, Breið þróunarfélag, Evris, Sjávarklasinn og Grænvangur.

Upplýsingar veitir Kolfinna Kristínardóttir, verkefnastjóri KLAK, [email protected].

is_ISÍslenska