KLAK VMS mentorar í góðu yfirlæti hjá MIT

Nýverið heimsóttu mentorar frá KLAK Icelandic Startups MIT-háskóla í Boston og sóttu þar tveggja daga vinnustofu um stöðu gervigreindar og væntanleg áhrif hennar á atvinnuíf og samfélag. Lögð var áhersla á að skilja hvernig fyrirtæki þurfa að bregðast við til að halda samkeppnisstöðu sinni í nýjum heimi gervigreindarinnar. 

Ferðin var liður í samstarfi KLAK og MIT Venture Mentoring Service (MIT VMS). Mentoraþjónusta KLAK (KLAK VMS) byggir á aðferðafræði sem MIT hefur þróað og tengir frumkvöðla við reynslumikia mentora úr atvinnulífinu sem hafa hlotið þjálfun frá fulltrúum MIT VMS. Árlega njóta rúmlega 100 sprotateymi stuðnings 181 mentors innan vébanda KLAK VMS.

Markmið ferðarinnar var að efla færni og þekkingu mentoranna, styrkja tengslanet þeirra og veita innblástur enda telst MIT ein helsta vagga nýsköpunar í heiminum.


Gervigreind og aðlögun frumkvöðla í hröðum tæknibreytingum

 

Vinnustofur MIT voru fjölbreyttar og uppfullar af fróðleik, enda er dvöl við MIT stundum líkt við það að drekka beint af brunaslöngu.



Mentorar fengu meðal annars fræðslu frá Melissa Webster lektor við MIT Sloan um hvernig nýta megi spunagreind (generative AI) markvisst í starfi, og mikilvægi þess að fyrirtæki séu viðbragðsfljót og sveigjanleg á tímum hraðra tæknibreytinga. Þá gaf Scott Stern prófessor við MIT Sloan innsýn í öflugt nýsköpunarumhverfi skólans.

Framsæknar lausnir og alþjóðleg tengslamyndun

Ferðin gaf einnig einstakt tækifæri til að kynnast MIT háskóla, og verkefnum á borð við MITdesignX, frumkvöðlahraðlinum sem Svafa Grönfeldt hefur stýrt undanfarin ár. Jafnframt kynntu frumkvöðlar við skólann fyrirtæki sín fyrir íslensku mentorunum en þau snérust öll um lausnir á stórum áskorunum sem snerta bæði umhverfi og samfélag. Þá heimsótti hópurinn Venture Café Cambridge sem er lifandi vettvangur þar sem frumkvöðlar og fjárfestar hittast vikulega til að kynnast, deila hugmyndum og þróa þær áfram.

Heimsóknin undirstrikaði mikilvægi þess að efla alþjóðlegt samstarf, miðla þekkingu og halda áfram að styrkja stoðir nýsköpunar á Íslandi í gegnum handleiðslu og tengslamyndun.

KLAK VMS

K

LAK VMS er mentoraþjónusta fyrir frumkvöðla, byggð á aðferðafræði MIT Venture Mentoring Service sem þróuð hefur verið í yfir 25 ár við MIT-háskólann í Boston. 

Kerfið byggir á trúnaði, teymisvinnu og því að mentorar einbeiti sér að framgangi sprotanna og megi ekki hafa aðra hagsmuni af þátttökunni

Allir mentorar KLAK VMS hljóta þjálfun frá MIT VMS og starfa samkvæmt alþjóðlega viðurkenndri fyrirmynd. Í dag starfa 181 mentorar hjá KLAK og styðja árlega rúmlega 100 sprotateymi með ráðgjöf og handleiðslu sem skilar skjótum framförum og meiri líkum á árangri.

Verkefnið er stutt af Rannís, Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytinu, ADVEL og KPMG.

is_ISÍslenska

Við notum vefkökur 🍪

Við notum vefkökur til að bæta upplifun þína, greina notkun á síðunni og styðja við áframhaldandi þróun á þjónustu okkar. Með því að smella á „Samþykkja allar“ samþykkir þú notkun þeirra.