fbpx

Klúður og kokteilar hjá Startup SuperNova

Klúðurkvöld Startup SuperNova var haldið fimmtudaginn 8. júní í verslun Nova í Lágmúla. Klúðurkvöld er vel þekkt erlendis og byggir á alþjóðlegri fyrirmynd þar sem frumkvöðlar koma og deila mistökum sínum. Vel þekktir og framúrskarandi frumkvöðlar sögðu hnyttilega frá mistökum sínum við uppbyggingu sprotafyrirtækis við góðar undirtektir úr sal. Þetta er í annað sinn sem Klak og Nova halda slíkan viðburð í tengslum við viðskiptahraðalinn Startup SuperNova. 

Rúmlega 100 gestir mættu til að hlýða á Tobbu Marinós, stofnanda og framkvæmdastjóra Náttúrulega Gott & Granólabarinn, Guðjón Már Guðjónsson, stofnanda og framkvæmdastjóra OZ, Stefaníu Bjarneyju Ólafsdóttur, meðstofnanda og framkvæmdastjóra Avo og Davíð Örn Símonarson, meðstofnanda og framkvæmdastjóra Smitten. 

Startup SuperNova er samstarfsverkefni Klak – Icelandic Startups og Nova þar sem leitast er við að byggja upp skalanlegar viðskiptalausnir ætlaðar alþjóðamarkaði.

Í ár hefst Startup SuperNova á tveggja daga Masterclass dagana 22.-23. júní og hraðallinn sjálfur hefst svo 9. ágúst þar sem tíu teymum býðst að taka þátt í sex vikna viðskiptahraðali. Startup SuperNova lýkur svo með glæsilegum fjárfestadegi þann 22. september.

Búið er að opna fyrir skráningar í Masterclass Startup SuperNova 2023.

is_ISIcelandic