fbpx

Magnús Ingi verður forstöðumaður KLAK VMS

Magnús Ingi Óskarsson, frumkvöðull og mentor, tekur við sem forstöðumaður mentoraþjónustu KLAK sem hefur hlotið nafnið KLAK Venture Mentoring Service. Mentoraþjónusta KLAK verður formlegt systurprógram MIT Venture Mentoring Service og hefur starfsfólk KLAK ásamt Magnúsi Inga hlotið þjálfun úti í MIT auk þess sem fulltrúar MIT VMS munu halda vinnustofur á Íslandi í febrúar. 

Magnús Ingi Óskarsson er annar stofnandi sprotafyrirtækisins Calidris. Calidris þróaði hugbúnað fyrir flugfélög sem bætti rekstur þeirra, jók sveigjanleika og tekjur. Calidris var selt til bandaríska fyrirtækisins Sabre árið 2010 en þá störfuðu um 40 manns hjá sprotafyrirtækinu en Sabre er eitt af stærstu hugbúnaðarfyrirtækjum heims fyrir flugfélög og ferðaþjónustu. Áður stýrði Magnús tekjustýringu Icelandair í fimm ár og var framkvæmdastjóri hjá OZ í eitt ár.

Það er gríðarlega verðmætt fyrir sprota, bæði þau sem eru að stíga sín fyrstu skref og þau sem eru lengra komin, að fá handleiðslu frá reyndum mentorum sem eru tilbúnir að miðla reynslu sinni og samböndum til að koma sprotunum hratt áfram.

Ég hlakka til að vinna með þessu frábæra fólki í atvinnulífinu sem er tilbúið að gefa sinn tíma og orku til að hjálpa sprotunum áfram. Mitt verkefni er að búa til ánægjulegan og frjóan vettvang þar sem sprotar fá mikið virði og mentorar mikla ánægju. Samstarfið við MIT Venture Mentoring Service lyftir þessari starfsemi okkar á annað og hærra plan.

Það er afar spennandi fyrir mig sem áhugamann um nýsköpun að fá að leggja mitt lóð á vogarskálarnar hjá flestum áhugaverðustu sprotum landsins sem fara í gegnum hraðla hjá KLAK eða Dafna verkefnið sem styrkþegar Tækniþróunarsjóðs koma inn í. Það er varla hægt að hugsa sér skemmtilegra starf á íslensku sprotasenunni.” segir Magnús Ingi Óskarsson.

Magnús Ingi er með B.Sc. í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands og M.Sc. frá Illinois Institute of Technology í Chicago. Magnús lauk síðar MBA gráðu frá IMD viðskiptaháskólanum í Sviss. Magnús Ingi er í ráðgjafaráði Eyris Ventures og síðustu ár hefur hann verið lykil mentor ýmissa sportafyrirtækja í Grósku og hægri hönd KLAK – Icelandic Startups.

Við fengum einstakt tækifæri að læra hvernig eigi að byggja upp mentoraþjónustu að fyrirmynd MIT Venture Mentoring Service í Boston. Nú tekur við krefjandi verkefni að byggja upp mentoraþjónustu KLAK og er mikill fengur í því að fá Magnús Inga í þetta verkefni með okkur en ég hef séð frá fyrstu hendi hverskonar töframaður hann er þegar kemur að ráðgjöf til sprotafyrirtækja.” er haft eftir Kristínu Soffíu Jónsdóttur framkvæmdastjóra KLAK – Icelandic Startups. 

is_ISÍslenska