fbpx

Metskráning í Masterclass Startup SuperNova

Aldrei hafa fleiri skráningar borist í Masterclass Startup SuperNova, sem er undirbúningsnámskeið fyrir viðskiptahraðallinn Startup SuperNova. Hraðallinn er  haldinn árlega af KLAK Icelandic Startups í samstarfi við NOVA en í ár bættist Huawei við í bakhjarlahóp Startup SuperNova.  

Masterclass Startup SuperNova 2023 var haldinn dagana 22-23. júní og skráðu hátt í 60 sprotafyrirtæki sig til leiks. Sprotafyrirtækin fylgdust með í hátíðarsal Grósku eða í beinu streymi þar sem reynslumiklir frumkvöðlar, stjórnendur og sérfræðingar úr atvinnulífinu miðluðu þekkingu sinni og reynslu. 

„Það eru mjög fjölbreyttar og flottar hugmyndir sem tóku þátt Masterclass í ár. Margs konar hugbúnaðarlausnir, meðal annars nokkrar sem byggja á gervigreind; verkefnastjórnunartól, mannauðslausnir, kennslutækni, ferðaþjónustu- og hringrásarverkefni svo eitthvað sé nefnt,“ segir Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri KLAK-Icelandic Startups.

Námskeiðinu var streymt og er upptaka af streyminu aðgengileg hér að neðan. Þannig geta frumkvöðlar sem ekki gátu mætt í Masterclass notið góðs af þeirri leiðsögn, innblæstri og góðum ráðum frá því reynsluríka fólki sem þar kom fram. 

Fyrri dagur – 22. júní: https://fb.watch/lt34OfYxwA/

Seinni dagur – 23. júní: https://fb.watch/lt2J-MgNAN/

Öllum þátttakendum í Masterclass gefst kostur á að sækja um í Startup SuperNova hraðalinn sjálfan. Tíu sprotafyrirtækjum verður síðan boðið sæti í hraðlinum og verður tilkynnt um þau heppnu þann 20. júlí. 

Startup SuperNova hefur fest sig í sessi sem einn helsti viðskiptahraðall landsins og verður hann nú keyrður í fjórða sinn í ár og hefst 9. ágúst. Hraðallinn er stökkpallur fyrir sprotafyrirtæki sem stefna á hraðan vöxt og erlenda markaði. Að auki er hann einstakur vettvangur til tengslamyndunar við aðila í atvinnulífinu, reynda mentora og frumkvöðla sem búa yfir lykilþekkingu á viðkomandi tækni eða geira. Vert er að nefna nokkrar sterkar fyrirmyndir úr sprotaumhverfinu, s.s. Plaio, Swapp agency og Stubbur sem hafa átt velgengni að fagna eftir að hafa tekið þátt í Startup SuperNova.