fbpx

Neistar flugu í allar áttir á BBQ & Pitch

Neistar flugu í allar áttir þegar grillstjórar Startup SuperNova mættu í Grósku og grilluðu ham­borg­ara fyr­ir 150 svanga frumkvöðla, fjárfesta og sprota sem kom­in voru á BBQ & Pitch. Einn af stærri viðburðum sem haldinn er af KLAK – Icelandic Startups sem er einn helsti stuðningsaðili við frumkvöðla og nýsköpunar á Íslandi. Viðburðurinn er hluti af Startup SuperNova viðskiptahraðlinum, sam­starfs­verk­efni Nova og KLAK með stuðningi Huawei, þar sem tíu öflug sprotafyrirtæki leit­ast við að byggja upp viðskipta­lausn­ir ætlaðar alþjóðamarkaði. 

Við logandi grillið stóðu Margrét Tryggvadóttir, forstjóri Nova og Þuríður Björg Guðnadóttir, framkvæmdastjóri Nova upplifunar sem mynduðu grilltangirnar ásamt Beatriz Garcia Martinez, samskiptastjóra Huawei, Vali Þór Gunnarssyni, framkvæmdastjóra og meðstofnanda Taktikal og Árna Blöndal, fjárfestingarstjóra hjá Brunni Ventures.

„Við höfum lagt áherslu á nýsköpun innan Nova sem og stutt við grasrótina. Fyrir okkur er Startup SuperNova mikilvægur vettvangur þar sem þátttakendur fá tækifæri til að koma hugmyndum framtíðarinnar á framfæri. Viðburðir eins og BBQ & Pitch og fleiri viðburðir hjá Startup SuperNova búa einnig til skemmtileg tækifæri til að hópa saman fólki í nýsköpun, mynda tengsl og deila reynslu.“ segir Þuríður Björg Guðnadóttir framkvæmdastjóri NOVA upplifunar.

Haft er eftir Vali Þór Gunnarssyni, framkvæmdastjóra og meðstofnanda Taktikal og grillmeistara Startup SuperNova:

„Taktikal byrjaði vegferð sýna í Gullegginu (sem er í umsjá KLAK) og það er því með mikilli ánægju að við tökum þátt í viðburðum eins og BBQ Pitch. Það er ómetanlegt fyrir nýsköpun á Íslandi að slíkir viðburðir séu haldnir og KLAK og stuðningsaðilar þeirra eiga hrós skilið fyrir sitt framlag.“ 

Jenna Björk Guðmundsdóttir, verkefnastjóri hjá KLAK – Icelandic Startups segir: “Sprotarnir hafa náð að kynnast vel á þessum fyrstu vikum hraðalsins og var því góður stuðningur milli teyma þegar þau stigu svo á svið til að kynna sín verkefni. Það var frábært að sjá hve mörg úr sprotasenunni komu til að hlusta á kollega sína halda lyftukynningar í Startup SuperNova en um 150 manns komu í Grósku.”

is_ISIcelandic