Nova og KLAK halda áfram öflugu samstarfi – Startup SuperNova til 2027

Nova og KLAK – Icelandic Startups hafa skrifað undir áframhaldandi samstarf um Startup SuperNova, nýsköpunarhraðalinn sem hefur skapað gríðarlegt virði í frumkvöðlaumhverfinu á undanförnum árum. Undirritunin fór fram í Grósku síðastliðinn föstudag, og nær samningurinn til næstu þriggja ára.

Startup SuperNova hefur verið haldinn árlega frá árinu 2020 og styður við frumkvöðla sem stefna með lausnir sínar á alþjóðamarkað. Frá upphafi hafa alls 32 sprotafyrirtæki farið í gegnum hraðalinn, þar sem nú starfa samanlagt 150 manns – og samanlagt tekjuflæði þeirra nemur um 3,5 milljörðum króna á ári.

„Með Startup Supernova erum við að búa til vettvang fyrir frumkvöðla úr ólíkum geirum til að vaxa, þróa hugmyndir sínar og laða að sér alþjóðlega fjárfesta. Það skiptir máli að hugsa stórt strax frá byrjun og við erum virkilega ánægð með að halda áfram þessu kraftmikla samstarfi við Nova næstu þrjú árin,“ segir Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri KLAK – Icelandic Startups.

🚀 Stökkpallur fyrir stórar hugmyndir

Upphaf Startup SuperNova 2025 verður fimmtudaginn 15. maí í #IcelandInnovationWeek með Klúðurkvöldi í verslun Nova í Lágmúla 9 – þar sem opnað verður fyrir umsóknir í hraðalinn. Umsóknarfrestur rennur út 18. júní og strax í kjölfarið fer Superclass vinnustofan fram dagana 19.-20. júní. Í kjölfarið 10 teymi fá tækifæri í sex vikna viðskiptahraðal sem hefst 5. ágúst.

„Við hjá Nova erum ótrúlega stolt af árangrinum sem sprotarnir hafa náð í gegnum Startup SuperNova og hlökkum til að styðja áfram við frumkvöðla með stórar hugmyndir. Hraðallinn hefur orðið að sannkölluðum stökkpalli fyrir nýsköpun sem skilar sér í virði fyrir íslenskt samfélag – og við erum til í meira! Það er heiður að taka þátt í þessu verkefni með KLAK,“ segir Þuríður Björg Guðnadóttir, framkvæmdastjóri markaðssóknar hjá Nova.

is_ISÍslenska