fbpx

Sprotar setja þungann á hringrásarhagkerfið

Sjö framúrskarandi og fjölbreytt sprotafyrirtæki hafa verið valin til þátttöku í Hringiðu 2023, viðskiptahraðal og samstarfsvettvang fyrir fyrirtæki á Íslandi, sem setja allan þungann á hringrásarhagkerfið og tryggja að auðlindum sé haldið í hagkerfinu.

Yfirferð umsókna var í höndum stýrihóps, sem er samsettur úr fulltrúum bakhjarla og samstarfsaðila Hringiðu. Í hópnum er reynslumikið fólk úr atvinnu- og viðskiptalífinu sem starfar við eflingu hringrásarhagkerfisins og grænna lausna. Leitast var eftir fjölbreyttum og efnilegum teymum til að takast á við áskoranir í loftslagsmálum með hringrásarhagkerfið að leiðarljósi. 

Umræðan um hringrásarhagkerfið hefur verið í brennidepli undanfarin ár og verður sífellt meira áríðandi með hverju árinu sem líður. Hringiða er þarft verkefni í þeirri umræðu og hefur á stuttum tíma náð að festa sig í sessi sem bjargráð til að auðvelda sprotafyrirtækjum að draga fram og þróa lausnir við áskorunum tengdum loftslagsmálum og skipa sér í forystu á alþjóðavísu í umhverfismálum. 

Hringiða byggir á alþjóðlegri fyrirmynd og er um að ræða sannreynt ferli þar sem sprotafyrirtækjum er veittur aðgangur að markvissri þjálfun og breiðu tengslaneti sérfræðinga úr atvinnulífinu. Haft er eftir Kolfinnu Kristínardóttur, verkefnastjóra Hringiðu, “Hraðallinn er öflugur samstarfsvettvangur hringrásarfyrirtækja á Íslandi sem gefur einstaklingum tækifæri á að kynnast öðru fólki sem hefur áhuga og starfa innan hringrásarhagkerfisins. Þátttakendur Hringiðu öðlast þannig breitt tengslanet leiðbeinenda úr atvinnulífinu auk þess að verða í lokin í stakk búin að sækja um styrki í Evrópusjóði, svo sem LIFE og Horizon Europe.” 

Mar Eco

Mar Eco stendur fyrir Marine Ecolocial Solutions en markmiðið er að vinna að umhverfisvænum lausnum í framleiðslu og notkun veiðarfæra. Notast er við endurunnið plastrusl úr sjó sem styður við bláa hagkerfið og umhverfisvænar veiðar. 

Í teyminu eru Atli Már Jósafatsson, Gunnar Már Atlason og Andrea Thormar. 

Melta

Melta býður upp á hringrásarþjónustu og framleiðslu á lífrænum áburði úr lífúrgangi í dreifbýlum og sveitarfélögum.

Í teyminu eru Björk Brynjarsdóttir og Júlía Brenner. 

Orb 

Orb þróar tækni til að mæla kolefnisbindingu skóga á ódýran og aðgengilegan hátt til að stuðla að ábyrgri kolefnisjöfnun og framleiðslu vottaðra kolefniseininga.

Í teyminu eru Íris Ólafsdóttir og Jón Arnar Tómasson. 

Resea Energy

Resea Energy er rannsóknar- og þróunarfyrirtæki sem stefnir á framleiðslu á lífeldsneyti úr hrati frá ræktuðu þangi.

Í teyminu eru Páll Gunnarsson og Ingi Björn Sigurðsson.

Alor

Alor vinnur að þróun og framleiðslu á umhverfisvænum álrafhlöðum og orkugeymslum af mismunandi stærðum þ.e. frá litlum rafhlöðum og rafgeymum yfir í stórar orkugeymslur í gámastærðum.

Á bakvið Alor standa Linda Fanney Valgeirsdóttir og Rúnar Unnþórsson. 

Bambahús 

Bambahús eru gróðurhús sem stuðlar að eflingu hringrásarhagkerfisins þar sem endurnýttar eru vökvaumbúðir sem annars væru fluttar úr landi og urðaðar. Húsin eru létt, traust, fyrnasterk og sérhönnuð með íslenskt veðurfar í huga. 

Í teyminu eru Reynir Hjálmarsson, Jón Hafþór Marteinsson og Sigrún Arna Gylfadóttir.

Munasafn RVK Tool Library 

Hringrásarsafnið veitir samfélögum sanngjarnan og fjárhagslegan aðgang að tólum og öðrum munum.

Í teyminu eru Anna De Matos og Kristófer Henry.

Umsjón með hraðlinum er í höndum KLAK sem hefur til fjölda ára veitt aðstoð við þróun viðskiptahugmynda og leitt saman hóp hagaðila með verðmætasköpun að leiðarljósi. Bakhjarlar Hringiðu eru Reykjavíkurborg, Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Orkuveita Reykjavíkur, Faxaflóahafnir, Terra, Ölgerðin og Samtök iðnaðarins. Samstarfsaðilar Hringiðu eru Rannís, Breið þróunarfélag, Evris, Sjávarklasinn, Grænvangur og Orkuklasinn.   

is_ISIcelandic