fbpx

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið nýr bakhjarl Gulleggsins

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið er nýr bakhjarl Gulleggsins en Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, og Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri KLAK – Icelandic Startups undirrituðu samning til þriggja ára um þátttöku ráðuneytisins sem bakhjarls í Gullegginu.

„Til að ná markmiðum okkar í umhverfismálum verðum við að nýta okkar helstu auðlind, hugvitið. Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið leggur upp með að nýsköpun, rannsóknir og þróun leiki lykilhlutverk við umskiptin yfir í hringrásarhagkerfi og aðkoma ráðuneytisins að Gullegginu er liður í að styrkja frumkvöðla til góðra verka,“ er haft eftir Guðlaug Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. 

Gulleggið, sem haldið hefur verið af KLAK – Icelandic Startups í mörg ár, hefur fest sig í sessi sem ein vinsælasta frumkvöðlakeppni á Íslandi og veitt mörgum frumkvöðlum forskot og gott veganesti inn í nýsköpunarumhverfið á Íslandi. Fjöldi fyrirtækja hefur farið í gegnum Gulleggið og má þar m.a. nefna Controlant, Taktikal, Meniga, PayAnalytics og Atmonia.

“Það er mjög ánægjulegt að fá Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið inn sem nýjan bakhjarl Gulleggsins. Samstarfið mun án efa auka vitund um mikilvægi hringrásarhagkerfisins hjá keppendum í stærstu frumkvöðlakeppni Íslands. Aðkoma ráðuneytisins mun vera mikilvægur hvati fyrir hugmyndasmiði sem vilja sækja á ný mið og nýta tækifærin sem gefast í keppni eins og Gullegginu. Við hlökkum til samstarfsins.” Segir Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri KLAK – Icelandic Startups.

is_ISIcelandic