Vorúthlutun Tækniþróunarsjóðs Rannís

Hjá KLAK – Icelandic Startups vinnum við að því á hverjum degi að styðja við frumkvöðla og efla nýsköpunarsamfélagið á Íslandi. Það gleður okkur því sérstaklega mikið að sjá þegar teymi sem hafa farið í gegnum verkefni hjá okkur, hvort sem um er að ræða viðskiptahraðla, hugmyndahraðhlaup, eða frumkvöðlakeppnina Gulleggið ná verðskulduðum árangri. Á dögunum tilkynnti Tækniþróunarsjóður Rannís hvaða verkefni myndu hljóta boð um að ganga til samninga um styrk til að þróa áfram sína nýsköpun og voru allnokkur teymi sem sem KLAK hefur fengið að hafa aðkomu að í þeim hópi. 

Við viljum óska eftirfarandi teymum innilega til hamingju með þennan mikilvæga áfanga. Þau eru sannar fyrirmyndir og það gleður okkur að sjá hversu kraftmikil og metnaðarfull teymin sem fara í gegnum hraðla og verkefni KLAK reynast vera.

Circular Library Network ehf. tók þátt í Hringiðu árið 2023 og hlaut styrkinn Vöxt í þessari úthlutun fyrir verkefni sitt um Hringrásardeilihagkerfi. Þau vinna að þróun og vexti Hringrásarsafnsins en það er net deilistöðva um alla Reykjavík. Markmiðið er að veita aðgang að verkfærum, búnaði og gagnlegum hlutum fyrir viðgerðir, DIY verkefni, útilegur, saumaskap og áhugamál.

Massif Network ehf. hlaut styrk til markaðssóknar en fyrirtækið stefnir á að auka sýnileika sinn í kvikmyndaiðnaði. Þau tóku þátt í Startup SuperNova árið 2024 og sigruðu auk þess  Creative Business Cup Iceland keppnina sem haldin var af KLAK nú í vor. Massif network vinnur að því að aðstoða fagfólk í skapandi greinum við að finna staðsetningar fyrir verkefni sín og koma því í samband við traust tengslanet framleiðslufyrirtækja og fagfólks á þeim stöðum sem verða fyrir valinu.

Orb ehf. hlaut markaðsþróunarstyrk til viðskiptaþróunar fyrir skógmælingahugbúnað en fyrirtækið tók þátt í Hringiðu árið 2023. Orb vinnur að þróun þessa hugbúnaðar sem einfaldar vottun og eftirlit með skógum. Lausnin sameinar vettvangsmælingar með gervihnattagögnum og veitir nákvæma yfirsýn yfir ástand skóga.

Fyrirtækin Flöff, SagaReg og Visttorg hlutu öll Sprotastyrk. 

Flöff ehf. tók þátt í Þráðaþoni árið 2024 og Hringiðu það sama ár en þau hyggjast nýta styrkinn til rannsókna og þróunar á nýtingu textílúrgangs og ullar á Íslandi. Flöff vinnur alla jafna að fyrstu textílendurvinnslustöð Íslands, breytir úrgangi í ný verðmæti og framleiðir hágæða hönnunarvörur með sjálfbærni að leiðarljósi.

SagaReg bar sigur úr býtum í Gullegginu í upphafi ársins 2025 og hlaut styrk til frekari þróunar á sinni lausn sem einfaldar gerð umsóknarskjala (e. dossiers) um markaðsleyfi lyfja með gervigreind og sérhæfðum hugbúnaði.

Visttorg ehf. tók þátt í Hringiðu árið 2024 og hlaut styrk til þess að þróa Vistbók en það er snjall gagngrunnsþjónusta fyrir umhverfisáhrif byggingarefna. Visttorg er tæknifyrirtæki sem býður upp á gagnadrifna þjónustu fyrir arkitekta, hönnuði, verkfræðinga, verktaka, byggingaraðila, söluaðila og fasteignafélög sem vilja vera fremst í flokki við að lækka kolefnis- og vistspor byggingariðnaðarins.

Fyrirtækin Vital sync og Snotra sjálfbærni hlutu fræ styrk. 

Snotra sjálfbærni fór í gegnum Startup Tourism hraðalinn haustið 2024.  Snotra er að þróa gervi­greind­ar­lausn byggða á SaaS til að styrkja ferðaþjón­ust­una, tryggja sam­ræmi við sjálf­bærni­stefnu ESB og iðnaðarstaðla með gagna­söfn­un og dreifðri, gagn­virkri þjálf­un sem miðar að því að auka heild­arþátt­töku í sjálf­bærni í ferðaþjón­ustu.

VitalSync komust í topp 10 hópinn í úrslitakeppni Gulleggsins í ár. Vital sync vinnur að því að lengja sjálfstæða búsetu aldraðra. Það leitast þeir við að gera með innleiðingu öryggisbúnaðar sem fellur betur inn í rútínu aldraðra, t.d. með mælitækjum innbyggðum í fatnað.

is_ISÍslenska

Við notum vefkökur 🍪

Við notum vefkökur til að bæta upplifun þína, greina notkun á síðunni og styðja við áframhaldandi þróun á þjónustu okkar. Með því að smella á „Samþykkja allar“ samþykkir þú notkun þeirra.