Hugmyndahraðhlaup Gulleggsins & Landsbankans fór fram í Landsbankanum helgina 9.-10. janúar s.l. , þar sem háskólanemar alls staðar að af landinu komu saman og unnu lausnir viðvið raunverulegum áskorunum frá hópi bakhjarla Gulleggsins. Þátttakan var frábær og fjölbreytt, með teymum úr háskólum landsins sem mynduðu öflugt samfélag nýsköpunar, samvinnu og skapandi hugsunar.

Orden bar sigur úr býtum með lausn á áskorun JBT Marel
Teymið Orden stóð uppi sem sigurvegari Hugmyndahraðhlaupsins, en teymið tókst á við áskorun JBT Marel, sem snýr að því hvernig minni matvælaframleiðendur geti nýtt sér sjálfvirknivæðingu og snjallar tæknilausnir til að efla gæði og auka skilvirkni. Orden kynnti hugmynd að hugbúnaðarlausn sem samþættir gögn frá ólíkum vélum og skynjurum og innleiðir sjálfvirka skýrslugerð. Lausnin léttir verulega á handavinnu við gæðaeftirlit og vottanir, sem hefur verið stór þröskuldur fyrir smærri fyrirtæki.



„Hraðhlaupið sýnir kraftinn sem skapast þegar ólíkir hæfileikar koma saman og leysa áskoranir á stuttum tíma. Með faglegri handleiðslu og skýrum áskorunum ná teymi að móta lausnir sem geta haft raunveruleg áhrif,“ segir verkefnateymi Gulleggsins.
Verðlaun og næstu skref
Sigur Orden tryggði teyminu 150.000 kr. verðlaunafé og sæti í Topp 10 hópnum í Lokakeppni Gulleggsins 2026. Lokakeppnin fer fram í Grósku 26. febrúar og munu teymi kynna hugmyndir sínar fyrir dómnefnd og áheyrendum.
Áskoranir bakhjarla og öflugt stuðningsumhverfi
ELKO, Háskólinn í Reykjavík, KPMG, JBT Marel og Reykjavíkurborg lögðu fram áskoranir sem þátttakendur unnu að í gegnum helgina. Hugmyndahraðhlaupið er hluti af víðtækum stuðningi KLAK – Icelandic Startups við frumkvöðla, þar sem þekking, tengsl og leiðsögn sérfræðinga skapa vettvang fyrir framfarir og verðmætasköpun.

Gulleggið
Gulleggið, sem er stærsta og elsta frumkvöðlakeppni Íslands á hugmyndastigi er haldin árlega af KLAK – Icelandic Startups. Keppnin er öllum opin og sérstaklega ætluð þeim sem hafa áhuga á nýsköpun og stofnun fyrirtækja, óháð því hvort hugmyndin sé fullmótuð eða ekki. Sigurvegarinn hlýtur 2 milljónir króna frá Landsbankanum.
Masterclass Gulleggsins, opið og ókeypis námskeið þar sem þátttakendur fá aðstoð við að móta hugmyndir sínar, greina viðskiptatækifæri og útbúa kynningu sem uppfyllir skilyrði lokakeppninnar.