KLAK VMS hefur undirritað samstarfssamning við eina fremstu lögmannsstofu Íslands, ADVEL lögmenn. Markmið þessa samnings er að efla enn frekar mentoraþjónustu KLAK VMS til að hún geti enn betur stutt við og og hámarkað árangur þeirra sprota sem hennar njóta. Við undirritunina voru Ragnar Guðmundsson frá ADVEL og Magnús Ingi Óskarsson, forstöðumaður KLAK VMS.
KLAK VMS er einn mikilvægasti þátturinn í stuðningskerfi sprotasamfélagsins á Íslandi og styður við 80-100 sprotateymi á hverju ári með kennslu og mentorastuðningi. Framfarir teymanna undir handleiðslu mentoranna skila sér í stórauknum líkum á að sprotarnir nái árangri, íslensku samfélagi til hagsbóta.
“KLAK VMS er ein mesta framför í stuðningi við sprotasamfélagið. Við sjáum það í allri endurgjöf frá sprotum hversu mikilvæg þessi þjónusta er. Að fá teymi af reyndum sérfræðingum sem margir hverjir hafa áður framkvæmt eitthvað svipað því sem sprotinn er að reyna að gera núna, er algerlega ómetanlegt og skiptir oft sköpum í framþróun sprotans”, segir Magnús Ingi Óskarsson, forstöðumaður KLAK VMS hjá KLAK – Icelandic Startups.
“Við hlökkum til að styðja við KLAK VMS. Ég er sjálfur mentor í VMS og finn hversu miklu máli þessi stuðningur skiptir. Við hjá ADVEL höfum lengi lagt á það ríka áherslu að styðja við nýsköpun og sprotafyrirtæki og átt gott samstarf við KLAK í þeim efnum. Við teljum og sjáum raunar svart á hvítu í okkar starfi að fátt drífur áfram efnahagslífið og aukin lífsgæði hér á landi eins og öflugt nýsköpunarstarf” segir Ragnar Guðmundsson, lögmaður og eigandi hjá ADVEL.
Nú eru 180 mentorar starfandi hjá KLAK VMS. Þetta eru reyndir frumkvöðlar, ýmsir sérfræðingar og stjórnendur úr íslensku atvinnulífi sem hafa allir hlotið þjálfun frá MIT-VMS en það er mentorakerfi til stuðnings frumkvöðlum sem þróað hefur verið innan MIT háskólasamfélagsins í Boston. Markmiðið er að byggja KLAK VMS samfélagið upp enn frekar og bjóða upp á meiri þjálfun, fræðslu- og tengslamyndunartækifæri fyrir mentorahópinn til að auka virði fyrir þá að taka þátt í KLAK VMS samfélaginu og gefa vinnu sína í þágu frumkvöðla. Til þess að ná þessum árangri fær KLAK VMS bakhjarla til liðs við sig og gerir við þá styrktarsamninga eins og þennan.
Sem hluti af samstarfinu munu ADVEL lögmenn einnig bjóða upp á ókeypis ráðgjafatíma fyrir sprota, sem þannig geta fengið ráðgjöf um lögfræðileg mál sem þeir eru að glíma við.
„Við erum afar spennt fyrir samstarfinu við ADVEL lögmenn. ADVEL hefur verið dyggur stuðningsaðili KLAK í mörg ár og kemur núna sérstaklega inn með stuðning við VMS. Það er mikill fengur fyrir sprotana okkar að fá aðgang að þeirri sérþekkingu sem þeir hafa á lagalegum viðfangsefnum sem sprotarnir eru að glíma við. Svo er þetta mikil viðurkenning á því að við séum að gera góða hluti sem vert er að styðja við” segir Magnús Ingi að lokum.