fbpx

Hringiðu lauk með dynjandi lófaklappi



Viðskiptahraðallinn um hringrásarhagkerfið, Hringiða lauk á The Reykjavík Edition þar sem helstu einstaklingar úr viðskiptalífinu, fjárfestar, bakhjarlar, stýrihópar, mentorar og áhugasamir hlýddu á viðskiptakynningar allra sprotafyrirtækjanna í Hringiðu.

Þórhildur Þorkelsdóttir, fjölmiðlakona opnaði viðburðinn og í framhaldi fylgdu kynningar allra sprotafyrirtækjanna undir dynjandi lófaklappi allra viðstaddra. Sprotafyrirtækin voru Snerpa Power, Sidewind, Álvit, Ýmir Technologies, GreenBytes, Plogg-In og e1. Að lokinni kynningu þaulspurðu Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir, viðskiptaþró­un­ar­stjóri hjá Auðnu tækni­torgi og Örn Viðar Skúlason hjá Nýsköpunarsjóði hvern sprota spjörunum úr um einstök atriði til að dýpka kynningu hvers og eins sprota.  

Það var gaman að sjá hvernig þátttakendur náðu að vaxa og dafna í Hringiðu í ár og einstakt að kynnast öllum teymunum. Hvert og eitt þeirra voru með virkilega gott verkefni sem stuðlar að sjálfbæru samfélagi og þar með hraða innleiðingu hringrásarhagkerfisins á Íslandi.” sagði Kolfinna Kristínardóttir, verkefnastjóri Hringiðu.

Sprotafyrirtækin sjö sem valin voru í Hringiðu fóru í gegnum átta vikna verða nú í stakk búin að sækja um Evrópustyrki LIFE-áætluninnar sem byggir á hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins. Sérfræðingar frá Inspiralia sem sérhæfa sig í að aðstoða sprotafyrirtæki að sækja um styrki fóru ítarlega yfir umsóknarferlið og kynntu einnig aðra mikilvæga styrki fyrir fyrirtæki í startholunum. Vinnan sem sprotafyrirtækin settu í Hringiðu samanstóð af fundum með mentorum, fyrirlestrum um fjármögnun, markaðssetningu, viðskiptaáætlun og hvernig eigi að koma fram svo eitthvað sé nefnt. Bæði fjárfestar og einstaklingar úr viðskiptalífinu sýndu sprotafyrirtækjunum mikinn áhuga en að lokinni kynningum frá öllum sprotum gafst góður tími að blanda saman geði og tengjast.

Viðskiptahraðallinn byggir á alþjóðlegri fyrirmynd og býður upp á metnaðarfullan vettvang og góðan undirbúning fyrir umsóknir í Evrópustyrki. Þungamiðjan í hraðlinum felst í skipulögðum fundum þátttakenda með reyndum frumkvöðlum, fjárfestum og öðrum sérfræðingum. Um er að ræða sannreynt ferli þar sem allt að tíu sprota verkefnum er veittur aðgangur að breiðu tengslaneti leiðbeinenda úr atvinnulífinu og markvissri þjálfun.

Umsjón með hraðlinum er í höndum Klak sem hefur til fjölda ára veitt aðstoð við þróun viðskiptahugmynda og leitt saman hóp hagaðila með verðmætasköpun að leiðarljósi. Að verkefninu standa  Orkuveita Reykjavíkur, Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Reykjavíkurborg, Sorpa, Terra, Faxaflóahafnir, Samtök iðnaðarins og Ölgerðin.

Ljósmyndir/Hari