Founders lunch með Prescriby

Það er sannarlega kraftur í loftinu hjá Startup SuperNova þessa dagana! Við höfum rétt hafið hraðalinn eftir Verslunarmannahelgi og það er greinilegt að frumkvöðlarnir okkar eru ekki í sumarfríi. Hér ríkir metnaður, orka og kraftur til að skapa eitthvað nýtt og mikilvægt fyrir íslenskt samfélag.

Í dag fengum við Kjartan Þórsson, stofnanda Prescriby, í heimsókn í Grósku á fyrsta „founders lunch“ Startup SuperNova 2025. Kjartan deildi með þátttakendum frumkvöðlaferðalagi sínu og sýndi hversu mikilvægt það er að hafa seiglu og hugrekki til að takast á við flókin úrlausnarefni.

Prescriby er íslenskt heilbrigðistæknifyrirtæki sem hefur vakið athygli fyrir stafrænar lausnir og heilbrigðisþjónustu sem styðja örugga og markvissa niðurtröppun sterkra verkjalyfja, róandi lyfja og svefnlyfja. Kjarninn í starfseminni er að aðstoða fólk við að minnka eða hætta notkun ávanabindandi lyfja með persónusniðinni og mælanlegri þjónustu, og hafa hundruðir manns um allt land, þegar nýtt þjónustuna. 

Kjartan og teymi hans hófu vegferð sína árið 2019 þegar þeir tóku þátt í Startup Reykjavík með verkefnið TrackEHR og lögðu þar grunn að þeirri hugmyndafræði og tækni sem Prescriby byggir á í dag, en þau hafa verið mjög iðin í senunni síðan og tekið meðal annars þátt í hugmyndahraðhlaupum og erlendum samstarfsverkefnum á borð við TINC (árið 2021).

Í dag rekur Prescriby sérhæfða niðurtröppunarmóttöku á Íslandi, þar sem einstaklingar fá leiðsögn og klínískt eftirlit í gegnum stafræna lausn fyrirtækisins. Markmiðið er að bæta lífsgæði fólks með því að styðja örugga niðurtröppun lyfja og gera meðferðina bæði betri og öruggari fyrir skjólstæðinga. Nú vinnur Prescriby að því að opna sambærilega klíník í Bandaríkjunum, þar sem íslenskt hugvit og tækni nýtur sín áfram.

Saga Prescriby er lýsandi dæmi um hvernig íslenskt hugvit og samvinna geta skapað raunveruleg áhrif. Kjartan lagði áherslu á mikilvægi þess að hlusta á markhópinn, vinna þétt með notendum og sérfræðingum og halda áfram að þróa lausnir sem mæta raunverulegum þörfum. Með slíkum fordæmum er ljóst að Startup SuperNova er kjörinn vettvangur fyrir frumkvöðla sem vilja láta til sín taka  og við hlökkum til að fylgjast með næstu skrefum allra teyma í hraðlinum.

Startup SuperNova


Startup SuperNova er samstarfsverkefni KLAK – Icelandic Startups, Nova og Huawei þar sem leitast er við að byggja upp viðskiptalausnir ætlaðar alþjóðamarkaði. Hraðallinn hefst 5. ágúst og lýkur með fjárfestadegi 19. september.

is_ISÍslenska

Við notum vefkökur 🍪

Við notum vefkökur til að bæta upplifun þína, greina notkun á síðunni og styðja við áframhaldandi þróun á þjónustu okkar. Með því að smella á „Samþykkja allar“ samþykkir þú notkun þeirra.