fbpx

Aðsókn kvenna í Startup SuperNova eykst milli ára

Nýsköpunarumhverfið á Íslandi er í miklum blóma þessi misserin. Umhverfið hefur dafnað vel og þroskast sem sést einna helst á hversu margir frumkvöðlar sækja viðburði, vinnustofur, fyrirlestra og ráðstefnur tengt nýsköpun. 

Kvenfrumkvöðlar hafa talsvert verið að sækja í sig veðrið undanfarin ár og með góðum árangri fengið góða umfjöllun í helstu fjölmiðlum landsins og erlendis. Aðsókn kvenna í viðskiptahraðla hjá KLAK- Icelandic Startups hefur einnig aukist jafnt og þétt. 

Það er mjög ánægjulegt að sjá aukningu í umsóknum frá kvenfrumkvöðlum í Startup Supernova hraðalinn sem KLAK hefur umsjón með og er að undirbúa þessa dagana. Í gegnum tíðina hefur hlutfall umsókna frá konum verið í kringum 20% en í fyrra var hlutfallið 36% og í ár er það um 40%. Þetta er vonandi vísbending um að konur séu í auknum mæli að einbeita sér að nýsköpun á sviði skalanlegra tæknilausna” segir Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri KLAK – Icelandic Startups.

Stafrænar mannauðslausnir eru í áberandi í umsóknum í Startup SuperNova í ár sem hefur séð fjölbreyttan hóp sprotafyrirtækja frá fyrstu árum hraðalsins og margar mismunandi nýsköpunarlausnir við ýmsum vandamálum.  

Það er alltaf erfitt að velja úr jafn flottum hópi umsækjenda eins og í ár. Við erum í þessum töluðum orðum að fara yfir umsóknir og munum bjóða 10 sprotum í viðskiptahraðalinn þegar þeirri vinnu líkur. Við það tilfelli ætlum við að slá upp til grillveislu þann 20. júlí á svölunum á fjórðu hæð í Grósku hugmyndahúsi með útsýni yfir gosstöðvarnar. Þetta verður gleðistund fyrir sprotana en öll munu halda einna mínútna lyftukynningu fyrir framan bakhjarla hraðalssins og aðra upprennandi frumkvöðla”, segir Ásta Sóllilja.

Startup SuperNova er samstarfsverkefni KLAK – Icelandic Startups og Nova með stuðningi Huawei sem hafa hvatt einstaklinga að halda áfram en ekki gefast upp á miðri leið með því að bjóða upp á vinnustofur, mentorafundi KLAK VMS, fyrirlestra, framkomuþjálfun, fjölmiðlasamskipti og viðburði þar sem fróðleikur berst frá frumkvöðli til frumkvöðuls. 

Mynd: Renata Bade Barajas, meðstofnandi GreenBytes hélt fyrirlestur í hátíðarsala Grósku á Masterclass Startup SuperNova í lok júní.

is_ISÍslenska