Bjartsýni og jákvæðni sveif yfir vötnum í Hátíðarsal Grósku miðvikudaginn 7. desember en þar fór fram lokadagur Snjallræðis og kynntu níu sprotafyrirtæki sín verkefni sem öll snúa að því að leysa aðsteðjandi samfélagsvanda. Hópur frumkvöðla hefur síðustu 16 vikunnar tekið þátt í vaxtarrýminu (e.incubator) Snjallræði og fengið þar fræðslu og þjálfun frá innlendum og erlendum sérfræðingum á sviði samfélagsmála og nýsköpunar sem og fundi með reyndum mentorum sem fylgt hafa þeim seinustu mánuði.
Hvert teymi kynnti í 3 mínútur og svaraði svo spurningum frá „hákörlunum“ Svönu Gunnarsdóttur, framkvæmdastjóra Frumtaks og Kristjáns Schram, stofnandi og eigandi Instrúment.
Dæmi um sprotafyrirtæki sem kynntu á lokadeginum má nefna Fort sem vinnur gegn vöðvarýrnun langlegusjúklinga, Sara – stelpa með ADHD sem stuðla að aukinni meðvitund um birtingamynd ADHD í stelpum og BioBuilding sem eru að þróa íslenska hampsteypu.
Lokadagurinn markaði útskrift þessara sprotafyrirtækja sem hafa helgað sig því að leysa áskoranir samfélagsins með hugviti og öflugri framtíðarsýn og verður spennandi að fylgjast með þeim í framtíðinni.
Fjöldi fólks lagði leið sína í Grósku en kynnir dagsins var grínistinn og fyrrverandi borgarstjórinn Jón Gnarr fór á kostum. Meðal gesta mátti sjá Þór Sigfússon framkvæmdastjóra Sjávarklasans, Hrund Gunnsteinsdóttur framkvæmdastjóra Festu, Jón Atla Benediktsson rektor HÍ og Lóu Báru Gunnarsdóttur markaðsstjóra Origo. Fólk var sammála um að viðburðurinn hafði tekist vel og náð að fylla fólk von og bjartsýni fyrir batnandi heimi.
Kolfinna Kristínardóttir, verkefnastjóri Snjallræðis: „Það er gott að sjá þennan áhuga á samfélagslegri nýsköpun og frábært að fá að taka á móti yfir 150 manns hér í dag. Teymin tóku miklum framförum á þessum 16 vikum og er ég mjög ánægð með árangurinn“.
Snjallræði var stofnað árið 2018 af Höfða friðarsetri og fór nú fram í fjórða sinn. KLAK – Icelandic Startups sjá um vaxtarrýmið í samstarfið við MIT DesignX og er þungamiðja þess vinnustofur þar sem að sérfræðingar frá MIT koma til landsins og deila þekkingu sinni.
Markmið vaxtarrýmisins er að ýta undir nýsköpun sem tekst á við áskoranir samtímans og er þannig mikilvægur vettvangur fyrir samfélagssprota.
Verkefnið er stutt af Reykjavíkurborg, Félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu, Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík, Marel, Origo, Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu, Landsvirkjun og Deloitte. Aðrir samstarfsaðilar voru Háskólinn á Akureyri, Listháskóli Íslands og Festa.