fbpx

Controlant gerist bakhjarl Gulleggsins 2023

Controlant sigraði Gulleggið árið 2009 og koma nú inn sem bakhjarl Gulleggsins 2023, stærstu frumkvöðlakeppni landsins og gefur þannig tilbaka til nýsköpunar- og frumkvöðlasamfélagsins á Íslandi.

Controlant þekkir af eigin raun hversu mikilvægt er að styðja við sprota og frumkvöðla en árið 2009 vann Controlant Gulleggið og veitt viðurkenningin stofnendum gríðarlega hvatningu til að halda áfram uppbyggingu fyrirtækisins og hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd.

Síðan þá hefur Controlant vaxið og dafnað og í dag starfa um 420 manns hjá fyrirtækinu í fimm löndum við að þróa, framleiða og þjónusta vöktunarlausnir sem notaðar eru af stærstu lyfjafyrirtækjum heims til að tryggja að lyf og bóluefni komist með öruggum og skilvirkum hætti á áfangastað.

Controlant hefur unnið til margvíslegra verðlauna og viðurkenninga, bæði hér heima og erlendis, þar á meðal Vaxtarsprotann 2022 fyrir öfluga uppbyggingu sprotafyrirtækis, Útflutningsverðlaun forseta Íslands 2021 og Nýsköpunarverðlaun Íslands 2020.

Búist er við áframhaldandi vexti næstu árin þar sem sjaldan hefur verið meiri þörf á öruggum, skilvirkum og rekjanlegum flutningi viðkvæmra lyfja með sjálfbærni og lágmörkun sóunar að leiðarljósi.

Í ár heldur Controlant upp á 15 ára afmæli sitt og fagnar því að geta á þeim tímamótum stutt við frumkvöðla sem vilja koma hugmyndum sínum til framkvæmda.

Gísli Herjólfsson, forstjóri og einn stofnenda Controlant:

“Það var okkur gríðarlega mikil hvatning að fá Gulleggið á sínum tíma. Við vorum þá hefðbundinn sproti með örfáa starfsmenn, litlar sem engar tekjur en stórar hugmyndir sem við vildum gera að veruleika. Í kjölfar viðurkenningarinnar og styrk frá Rannís fór boltinn að rúlla þar sem við gátum laðað til okkar frábært fólk og fjárfesta til að eltast við stóru hugmyndirnar. Við erum ánægð að geta nú gefið tilbaka og stutt við nýsköpunarsamfélagið á Íslandi sem er gríðarlega mikilvægur jarðvegur fyrir frumkvöðla framtíðarinnar.”

Kristín Soffía Jónsdóttir, framkvæmdastjóri KLAK – Icelandic Startups:

Ekki má gleyma Controlant er fyrsti bakhjarl Gulleggsins sem unnið hefur frumkvöðlakeppnina. Controlant er það fyrirtæki sem við vísum til þegar við tölum um árangur Gulleggsins og það er okkur mjög mikilvægt að fá þau inn sem bakhjarla. Þau veita keppninni ekki bara fjárhagslegan styrk heldur koma þau inn með reynslu og þekkingu sem mun klárlega skila okkur fleiri öflugum Gulleggjum.