Gunnar Tryggvason, hafnarstjóri Faxaflóahafna og Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri KLAK Icelandic Startups, undirrituðu nýverið samstarfssamning um stuðning Faxaflóahafna við viðskiptahraðalinn Startup Tourism sem hefur verið vakinn af dvala og hefst 28. október næstkomandi.
Með samningnum styðja Faxaflóahafnir við framþróun í íslenskri ferðaþjónustu en hraðlinum er ætlað að hvetja til nýsköpunar og frumkvöðlastarfs á sviði ferðaþjónustu, styrkja stoðir nýrra fyrirtækja, fjölga afþreyingarmöguleikum, ýta undir tæknivæðingu í ferðaþjónustu og stuðla að dreifingu ferðamanna víðsvegar um landið, allan ársins hring.
„Saga Faxaflóahafna spannar yfir hundrað ára þróunarsögu við Faxaflóa og er um leið samofin samfélagsbreytingum á Íslandi sem leiðandi höfn. Miklar breytingar hafa átt sér stað í starfsemi Faxaflóahafna seinasta áratuginn, þar sem starfsemi tengd ferðaþjónustu er nú í kringum fjórðungur af tekjum hafnarinnar – því er mikilvægt höfnin stuðli að nýsköpun í þeim geira til að tryggja áframhaldandi þróun til hagsbóta fyrir samfélagið”.
Segir Gunnar Tryggvason hafnarstjóri.
„KLAK styður við sprota á Íslandi með því að bjóða upp á viðskiptahraðla, eins og Startup Tourism, frumkvöðlum að kostnaðarlausu. Þetta væri ekki hægt nema með hjálp öflugra bakhjarla eins og Faxaflóahafna. Við erum mjög ánægð að fá félagið með okkur í þetta verkefni”.
Er haft eftir Ástu Sóllilju Guðmundsdóttur framkvæmdastjóra KLAK-Icelandic Startups.