Orkuklasinn hefur bæst við í hóp samstarfsaðila Hringiðu, viðskiptahraðall sem miðar að því að skapa kraftmikið umhverfi fyrir sprotafyrirtæki sem setja allan þungann á hringrásarhagkerfið. Samstarfsaðilar Hringiðu eru Evris, Rannís, Grænvangur, Breið þróunarfélag, Sjávarklasinn og nú Orkuklasinn. Hlutverk þeirra er að miðla þekkingu sinni með skipulögðum vinnustofum, kynna starfsemi sína fyrir þátttakendum og taka virkan þátt í mótun hraðalsins.
Framkvæmdastjóri Orkuklasans, Rósbjörg Jónsdóttir
“Það er okkur sönn ánægja að vera komin í hóp öflugra samstarfsfélaga Hringiðu. Mikilvægt er að horfa til orkutengdra viðfangsefna og þróunar þegar horft er til uppbyggingu hringrásarhagkerfisins. Við hlökkum til samstarfsins og að sjá nýjar og bættar lausnir sem hjálpa okkur öllum að snúa línulegu hagkerfi í öfluga og áhrifaríka hringrás.”
Orkuklasinn er fulltrúi orkugeirans á Íslandi og er samstarfsvettvangur fjölda aðila sem starfa á sviði orkuiðnaðar og tengdra atvinnugreina.
Hringiða byggir á alþjóðlegri fyrirmynd og býður upp á metnaðarfullan vettvang og góðan undirbúning fyrir umsóknir í Evrópustyrki. Þungamiðjan í hraðlinum felst í skipulögðum fundum þátttakenda með reyndum frumkvöðlum, fjárfestum og öðrum sérfræðingum. Um er að ræða sannreynt ferli þar sem sprotaverkefnum er veittur aðgangur að breiðu tengslaneti leiðbeinenda úr atvinnulífinu og markvissri þjálfun.
Umsjón með hraðlinum er í höndum KLAK sem hefur til fjölda ára veitt aðstoð við þróun viðskiptahugmynda og leitt saman hóp hagaðila með verðmætasköpun að leiðarljósi. Bakhjarlar eru Reykjavíkurborg, Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Orkuveita Reykjavíkur, Faxaflóahafnir, Terra, Ölgerðin og Samtök iðnaðarins. Samstarfsaðilar Hringiðu eru Rannís, Breið þróunarfélag, Evris, Sjávarklasinn og Grænvangur.
Hringiða verður keyrð í þriðja sinn í ár en þau sprotafyrirtæki sem hafa farið í gegnum hraðalinn eru Snerpa Power, e1, Sidewind en það fyrrnefnda hlaut UT sprotann 2022. Umsóknarfrestur fyrir Hringiðu 2023 er til og með 19. febrúar. Tekið er við umsóknum hér.