Gulleggið hefur fest sig í sessi sem stærsta frumkvöðlakeppni landsins en keppnin hefur farið fram síðan árið 2007. Fjölmörg fyrirtæki hafa stigið sín fyrstu skref í Gullegginu og má þar nefna Solid Clouds, Genki, Róró, Meniga og svo Controlant sem er eitt af bakhjörlum keppninnar í ár.
Tæplega 300 frumkvöðlar skráðu sig til leiks í fyrra og eru nú þegar 59 teymi skráð í ár en frestur til að skrá sig rennur út 20. janúar.
Hugmyndir verða að veruleika í Gullegginu sem fer nú fram í 16 skiptið. Fyrstu skrefin í frumkvöðlakeppninni, Gullegginu 2023 verða tekin 21. – 22. janúar þegar við keyrum Masterclass Gulleggsins í gang í Grósku. Masterclassinn er opinn öllum þeim sem skrá sig í Gulleggið. Líkt og áður er hægt að skrá sig með eða án hugmyndar en í ár verður sérstök áhersla á að tengja saman frumkvöðla og mynda þannig öflugari teymi sem eiga þann möguleika að vinna Gulleggið 2023.
Masterclassinn sem fer nú fram í annað sinn er magnaður viðburður þar sem að frumkvöðlar og stórskotaliðið úr viðskiptaheiminum deilir reynslu sinni og en meðal fyrirlesara má nefna Gerði í Blush sem mun opna Masterclass Gulleggsins 2023. Guðjón M. Guðjónsson sem einnig er þekktur sem Guðjón í Oz, Sunna Halla Einarsdóttir fjármálastjóri KLAK og Taktikal, Oddur Ólafsson stofnandi Horseday ásamt þeim Kristjáni Schram hjá Instrúment og Haraldi Daða Ragnarssyni, stofnanda Manhattan Marketing og lektor hjá Bifröst.
Fyrirlesarar í Masterclass Gulleggsins fara yfir m.a. markaðssetningu, fjármögnunarumhverfið, Start-up Model, Lean Canvas, raunsögur sprotafyrirtækja og öll munu sitja vinnustofur með fyrirlesurum þar sem m.a. er farið yfir hvernig maður gerir lyftukynningar.
Nú er tækifærið að koma þinni hugmynd á framfæri. Masterclass Gulleggsins er einstakur vettvangur til að tengjast öðrum sem ganga með hugmyndir í maganum og til að kynnast frumkvöðlaumhverfinu og sprotasenunni á Íslandi. Ein af megin áherslum Masterclassins er að kenna frumkvöðlum að ramma inn sína hugmynd inn í góða sölukynningu. Frumkvöðlar hafa í kjölfarið tækifæri á að senda sína kynningu inn og freista þess að verða eitt af þeim 10 sprotafyrirtækjum sem keppa um Gulleggið þann 10. febrúar í beinni útsendingu frá Grósku.
Aðalbakhjarl Gulleggsins 2023 er Landsbankinn sem hefur tekið þátt í verkefninu frá upphafi en meðal annarra bakhjarla eru Controlant, Origo, HVIN, Reykjavíkurborg, Hugverkastofa, Advania, Marel, Eyrir Invest, Íslandsstofa, Crowberry capital, KPMG, Ölgerðin, Brunnur, Kvika eignastýring, Gróska, Frumtak ventures, Vörður auk Háskólinn í Reykjavík, Háskólinn á Akureyri og Háskóli Íslands.